Uppskerugleði

Þeir sem rækta grænmeti og ávexti kannast við sælutilfinninguna þegar uppskerutíminn nær hámarki. Ágúst! Dag eftir dag kitlar hollt og gott góðgæti bragðlaukana. Það jafnast ekkert á við grænmeti og ber beint af plöntunum. Auðvitað fylgja líka vonbrigði með eitthvað sem ekki gekk upp og svo kemur ýmislegt á óvart. Hér kemur flóð af myndum frá ágúst og fram í fyrstu viku september. Ég ætla að byrja á því sem kom skemmtilega á óvart.

Ég prófaði að rækta spergilkálssprota frá fræi í fyrsta sinn. Ég byrjaði ekki fyrr en seint í apríl svo mér var sagt að ég fengi ólíklega uppskeru. En ég var skotin í litlu plöntunum mínum og ákvað að gefa þeim séns. Setti þær niður í gróðrarkassana og viti menn, í ágúst hefur verið heilmikil uppskera og bragðið er dásamlegt!

Salat uppskeran hefur verið frábær og ég er enn að taka upp. Hér er allt úr garðinum og gróðurhúsinu. Salat, sellerí, gúrkur og spergilkálsprotar. Ekki amalegt!

Í síðasta pistli sagði ég ykkur frá mistökunum sem ég gerði. Ég setti kokteil gúrkurnar sem ég hafði forræktað of snemma út í hús, svo þær drápust úr kulda. Ég ákvað að byrja að forrækta aftur í júní og þó það væri seint borgaði það sig heldur betur. Við erum enn að uppskera helling af geggjuðum gúrkum á hverjum degi.

Fengum meira að segja tvíburagúrkur. Meiri krúttin!

Tvíbbarnir fullþroskaðir.

Hér er mynd af uppskeru eins dags og líka skjaldfléttufræ sem ég hef verið að safna til að nota næsta vor. Það glittir þarna í nokkur jalapeño. Þau voru ekki nógu þroskuð og því bragðdauf. Vonbrigði. Erum að vona að nokkur nái að þroskast almennilega fyrir veturinn. Allavega þrjú eru að verða aflöng eftir að vera kúlulaga allt sumarið.

Hér er svo búið að færa upp á disk um kvöldið, gulir og rauðir tómatar, spergilkálssprotar, gúrka og smá blómkál. Meira um það síðar. Út á var svo dressing úr kryddjurtum.

Við höfðum dálitlar áhyggjur af brjálæðislegri sprettu kartöflugrasana. Þau uxu eins og skógur og náðu mér næstum í mitti.

Og svo fóru þau að blómstra.

Svona líka fallegum blómum, en við vorum hrædd um að fyrst svona mikill vöxtur væri í grösunum yrði lítið undir þeim.

Það reyndust óþarfa áhyggjur. Fengum enn meiri uppskeru en í fyrra af rosalega góðum kartöflum. Oft 10-16 stykki undir hverju grasi.

Ég prófaði að setja blómin af kartöflugrösunum í vasa og þau stóðu í næstum tvær vikur! Þetta kom okkur heldur betur á óvart.

Kartöflur, spergilkálssprotar, salat, tómatar, gúrkur og kryddjurtir úr garði og gróðurhúsi.

Sjáið þessar fallegu kartöflur! En líka parísargulrætur, kryddjurtir, grænkál, sellerí, gúrkur, sykurbaunir og chilli.

Það er kássa af chilli á leiðinni.

Og sellerí verð ég að uppskera fram í október, eða jafnvel nóvember ef veðrið verður sæmilegt.

Ég minntist á blómkál áðan. Fengum nokkra fallega og bragðgóða hausa. Uppskeran er samt svo lítil að það borgar sig sennilega að nota plássið undir salat því við borðum svo mikið af því.

Þetta var nú aldeilis ljúffengt.

Sama má segja um tómatana. Þeir eru með eindæmum gómsætir en uppskeran lítil. Nokkrir dásemdar tómatar í lok ágúst.

Við héldum að það kæmu engir kirsuberjatómatar en allt í einu tók plantan við sér, spratt ógnar hratt og nú er hellingur af grænum tómötum á henni. Vonandi ná þeir að roðna úti í húsi, ef ekki fá þeir að roðna í eldhúsglugganum.

Uppáhaldið okkar í sumar voru þessi litlu en guðdómlegu villi jarðarber. Þessi eina planta frá Kitty Von-Sometime gaf af sér meira en lúkufylli af jarðarberjum flesta daga frá því snemma í júlí og er enn að gefa.

Uppskeran var fín í jarðarberjarturninum líka. Ekki jafn góð og í fyrra samt.

Svo er bara að setja í eftirréttaskálar.

Svolítið af hnetum eða granóla út á.

Þeyttan hafra- eða kókosrjóma og rifið dökkt súkkulaði. Flest borðum við þó bara beint af plöntunum.

Ég prófaði að taka afleggjara af jarðarberjapöntunum og koma þeim til í pottum.

Þarna eru þeir nýkomnir í pottana en plönturnar eru orðnar mun stærri núna. Mun svo grafa pottana niður í tómatabeðið í gróðurhúsinu yfir veturinn og vona að þær lifi af.

Að lokum eru það blessuð blómin. Ekki má gleyma þeim. Finnst gott að hafa lofnarblóm (lavender) bæði í gróðurhúsinu og úti. Ilmar svo vel!

Og svo er það hún Svana mín, Rhapsody in Blue, ilmurinn af henni er guðdómlegur.

Játning. Ég setti niður dalíuhnýði í vor en plönturnar urðu bara einhverjar renglur sem blómstruðu ekki. Svo ég keypti mér tvær litlar dalíur sem hafa stækkað og blómstrað svakalega í júlí og ágúst.

Gekk heldur ekki vel með fresíurnar að þessu sinni. Blómstraði bara ein. En falleg er hún og ilmar yndislega.

Einu alvöru vonbrigðin að þessu sinni eru þó að við virðumst ekki ætla að fá neina hvítlauks uppskeru. Samt gerðum við allt eins og í fyrra og þá fengum við helling. Veit ekki hvers vegna en hef þennan harða frostavetur grunaðan um að vera sökudólgurinn.

Ef ég hef lært eitthvað á þessu sumri er að gefast ekki upp. Gúrkurnar og spergilkálssprotarnir kenndu mér það. Því munum við ekki gefast upp og setja niður hvítlauk aftur í haust.

Svo er bara að bíða fram á næsta vor ☺️

Sæluréttir Siggu er skrásett vōrumerki. Uppskriftirnar eru einungis ætlaðar til einkanota. Óheimilt er að nota þær í hvers kyns veitingaþjónustu án skriflegs leyfis frá eiganda vōrumerkisins. Dreifing, afritun, birting og ōnnur notkun uppskrifta og ljósmynda á síðunni er einnig óheimil án leyfis.