Um Siggu

Borðað til bættrar heilsu og vellíðunar

Sigríður Pétursdóttir
Sigríður Pétursdóttir
Mynd: Sunna Ben

Ég hef ætíð verið óforbetranlegur sælkeri. Veit fátt skemmtilegra en að borða og hef gaman af eldamennsku og bakstri. Heilsunnar vegna hef ég þurft að hætta að borða margt af því sem ég var vön, en hætti þó ekki að vera sælkeri. Undanfarin ár hef ég þróað vegan, sykur- og glútenlausar uppskriftir, sem henta mér og kitla bragðlaukana. Perlur sjávarins hafa fengið að fljóta með. Ég er svo heppin að vera gift matreiðslumeistara sem hefur stutt mig með ráðum og dáð í tilraunamennskunni. Bakstur var mesta ögrunin og til að byrja með grét ég söltum tárum út í pönnukökudeig, sem hékk ekki saman og vildi ekki bakast. En æfingin skapar meistarann og nú hef ég glatt marga með heilsusamlegum kökum og sælgæti. Fátt veitir meiri ánægju en það. Tími til kominn að leyfa fleirum að njóta.

Þú eldist afturábak. Hvað er í gangi?

Vinir mínir þekktu mig varla lengur, en það hafði ekkert að gera með vinsæla kúra eða aðgerðir. Ég breytti um lífsstíl til að freista þess að endurheimta heilsuna. Árið 2016 hafði henni byrjað að hraka og ég hélt að ástæðan væri hækkandi aldur. Tveimur árum síðar voru bólgurnar í líkamanum orðnar svo slæmar að ég átti erfitt með jafn einfalda hluti og að klæða mig eða lyfta kaffibolla. Í október 2018 greindist ég með sjálfsofnæmissjúkdóminn liðagigt (Rheumatoid Arthritis) og óttaðist að líf mitt yrði aldrei samt.

Það vildi mér til happs að nokkrum mánuðum fyrr var ég kynnt fyrir ótrúlegri konu, sem hafði náð bata eftir áratuga heilsuleysi með hjálp breytts mataræðis og lifnaðarhátta. Konan sem gaf mér nýtt líf heitir Hildur M. Jónsdóttir og þið getið lesið um hana HÉR. Ég var ein af þeim fyrstu sem hún hjálpaði til betri heilsu og nú hef ég verið svo til einkenna- og lyfjalaus í rúm fjögur ár. Það er heilmikil vinna að halda sér á réttu róli, því ef ég borða svo mikið sem tvær döðlur í einu kreppast fingurnir, hjartslátturinn fer upp úr öllu valdi og ég verð andvaka. Svo illa þoli ég sykur.

Hvað máttu þá eiginlega borða?

Það var sérkennileg reynsla að verða ein af þessum erfiðu týpum með sérþarfir. Þessi sem fólk ranghvolfir augunum yfir á veitingastöðum og þorir ekki að bjóða í mat. Eðlilega. Sumir göntuðust með að nú yrði ég leiðindapési sem gæti ekki étið almennilegan mat, aðrir bentu mér „vinsamlega“ á að svona kúrar væru tískufyrirbrigði sem enginn héldi út. Svar mitt hefur alltaf verið það sama. Ég er ekki á neinum kúr, heldur er þetta löng og flókin breyting á lifnaðarháttum. Með þessari aðferð geri ég mitt besta til að forðast sársauka og orkuleysi. Að velja hvort maður fær sér marenstertu, eða getur verið verkjalaus á vappi, er ekkert sérstaklega erfitt val. Þess vegna gefst ég ekki upp.

Það sem ég þarf að forðast er sykur, glúten, kjöt, unnar matvörur, mjólkurvörur, koffein og mörg aukefni í matvælum. Ég get ekki notað hunang, hlynsýróp eða agave, sem er algengt í uppskriftum sem kenndar eru við hollustu. Stundum nota ég döðlur og banana í bakstri, en þá bara agnarlítið. Ég þoli að borða ber og flesta ávexti núorðið, en bara mjög lítið magn á dag. Ég elska súkkulaði, en þoli bara það sem er 100% og smá bita af einstaka tegundum yfir 85%. Við sífelldan lestur á innihaldslýsingum kemur í ljós að flest matvæli innihalda mikið af sykri og aukaefnum. Nánast allar vörur sem eru merktar glútenlausar eða vegan innihalda sykur eða fjölda auk- og þykkingarefna. Ef réttir á veitingastöðum eru glútenlausir innihalda þeir oftar en ekki sykur, hunang, eða síróp. Og sykurlausar vörur eru gjarnan með glúteni eða mjólkurafurðum. Sem betur fer hefur úrvalið þó aukist mikið á undanförnum árum.

Fyrir hverja eru svo uppskriftirnar?

Þó þessi strangi lífsstíll henti mér væri ég síðasta manneskjan til að segja að hann væri fyrir alla. Fólk er svo mismunandi. Hins vegar vona ég að Sæluréttir Siggu geti hjálpað þeim sem hafa ýmis konar mataróþol, eða þjást af bólgum í líkamanum. Uppskriftirnar eru líka fyrir þá sem hafa áhuga á að forðast sykur eða vilja auka hlut grænmetis í fæðunni. Fyrst og fremst vona ég að réttirnir rati til sinna og gleðji bragðlauka fólks á öllum aldri.