Júlí sæla

Eftir kalda, blauta og vindasama tíð fram í byrjun júlí kom loksins sumar. Grænmetið og blómin voru að niðurlotum komin af vosbúð og sólarleysi, en tóku við sér þegar veðrið batnaði. Mikið af plöntum og trjám á Reykjavíkursvæðinu fóru illa í þessum harða vetri og vori, sérstaklega vegna þess að það kom hlýindakafli og ýmislegt var farið að bruma þegar mjög slæmt hret truflaði. Við vorum nú frekar heppin, misstum eina rós, Victor Borge, og ég setti gúrkuplönturnar sem ég var búin að forrækta of snemma út í hús svo þær drápust allar. Ég byrjaði forræktun upp á nýtt og svo verður bara að koma í ljós hvort sumarið verður nógu langt til að ég fái almennilega uppskeru.

Annars fylgjumst við bara með þessum elskum í gróðurhúsinu og garðinum vaxa og þroskast. Myndin hér að ofan er af lítilli hendi að næla sér í fyrsta jarðarberið.

Barnabarnið hefur gaman af að koma í húsið og hjálpa til. Vökvar plönturnar og telur upp alla litina á skjaldfléttublómunum.

Skjaldflétturnar hafa verið með eindæmum duglegar að blómstra og það gæðir gróðurhúsið lífi og lit þar sem meira er af grænmeti og kryddjurtum þar inni en blómum.

Það er annars frábært að skreyta mat með skjaldfléttum, bæði blóm og blöð eru æt.

Hér er það blandað salat úr ræktunarkössunum og í salatsósunni er spínat, garðablóðberg og steinselja úr garðinum.

Aðrar kryddjurtir dafna vel líka, s.s. kóríander, mynta og rósmarín.

Við prófuðum að rækta vatnakarsa í fyrsta sinn. Það er einfalt og hann sprettur eins og illgresi. Þarf reyndar að endurnýja nokkrum sinnum yfir sumartímann til að fá hann ferskan og góðan í salat og djús.

Okkur hefur ekki gengið sérstaklega vel að rækta chilli undanfarin ár, en nú keyptum við litla plöntu hjá Kitty Von-Sometime og hún hefur margfaldast að stærð og dafnað vel. Við erum mjög spennt að smakka þessi fínu chilli.

Annað sem við erum spennt fyrir er jalapeño sen við erum að prófa að rækta í fyrsta sinn. Held það heiti eldpipar á okkar ástkæra ylhýra.

Eins og ég nefndi drapst Victor Borge rósin í vetur og ég hélt ég hefði misst Rhapsody in Blue líka. Það glitti þó í grænt innan í tveimur stilkum svo ég klippti hana alveg niður. Hún hefur launað það ríkulega, er orðin næstum eins stór og í fyrra og blómstrar eins og henni væri borgað fyrir það.

Verst að ilmur fylgir ekki myndinni. Hann er dásamlegur.

Tómatarnir eru enn grænir, en greinilegt að við eigum von á góðu.

Ég er búin að taka einu sinni upp rabbarbara og fer að taka upp aftur fljótlega. Hann er dásamlega góður þessi vínrabbarbari.

Gerði úr honum rabbarbara mylsnukökur og uppskriftin kemur inn á næstu dögum.

Grænkálið hefur líka verið gómsætt og mér finnst það einstaklega gott bakað með smá olíu, salti og svörtum pipar. Flott sem skraut líka.

Undanfarin sumur höfum við fengið heilu ósköpin af geggjuðum kokteil gúrkum, en eins og ég nefndi fór illa fyrir þeim sem ég forræktaði í vor.

Svo ég byrjaði bara aftur. Þær eru orðnar töluvert stærri en þegar þessi mynd var tekin, en spurning hvort ég fæ eitthvað af gúrkum í sumar. Hér eru svo að lokum aðeins fleiri myndir úr gróðurhúsi og garði.

Dalíurnar fögru.

Ef garðablóðbergið fer að blómstra er fínt að klippa og nota sem skraut.

Við vorum hrædd um kirsuberjatréð, en það lifði af.

Þessi mynd var tekin fyrr í sumar þegar við biðum spennt eftir að sólin léti sjá sig.

Þessi villi jarðarber eru pínulítil, en rosalega bragðgóð.

Sæluréttir Siggu er skrásett vōrumerki. Uppskriftirnar eru einungis ætlaðar til einkanota. Óheimilt er að nota þær í hvers kyns veitingaþjónustu án skriflegs leyfis frá eiganda vōrumerkisins. Dreifing, afritun, birting og ōnnur notkun uppskrifta og ljósmynda á síðunni er einnig óheimil án leyfis.