Uppskerulok og frágangur

Þegar þetta er skrifað er fyrsta óveður haustsins að ganga yfir landið. Appelsínugul viðvörun. Víða annars staðar væri það kallað vetrarveður. Við undirbjuggum gróðurhúsið fyrir veturinn um helgina og tókum upp gulrætur og kartöflur. Í ræktunarkössunum vex og dafnar selleríið enn, en allt annað komið inn í hús og ofaní maga. Í gróðurhúsinu bera tómatplönturnar ennþá ávöxt, á þeim hangir fjöldi grænna tómata. Sólarleysið gerir það að verkum að þeir verða sjálfsagt grænir áfram. Nokkur jarðarber eru enn að þroskast.

Við fengum töluvert af Parísargulrætum og þó flestar væru þær smáar var bragðið himneskt. Aflöngu gulræturnar þroskuðust hins vegar ekki. Voru pínulitlar, lengdin á stærð við nögl á litla fingri.
Hér eru líka nokkrar Parísar gulrætur sem eru agnar litlar. Þurftu lengri tíma og meiri sól til að þroskast þessar elskur.
Síðustu jarðarberin
Á meðan plönturnar þrífast í húsinu leyfi ég þeim að vera þar og vonandi stækka tómatarnir aðeins áður en ég þarf að taka þá inn. Í gluggakistunni ná sumir að roðna, en svo eru grænir tómatar líka herramanns matur.
Þarna má sjá síðustu baunirnar og spergilkálið. Nóg eftir af selleríi ennþá.
Kartöflu uppskeran var frábær. Fengum helling af þessum rauðu, gómsætu kartöflum. Undir einu grasinu leyndust 16 kartöflur. En oftast voru þær 6-12.
Best finnst mér að sjóða þær aðeins fyrst og velta svo upp úr olíu eða vegan smjöri á pönnu og krydda með salti og svörtum pipar.
Í þessum rétti leynist ýmislegt úr bakgarðinum; kartölfur, grænir tómatar, baunir og spergilkál.
Og hér eru kartöflurnar okkar steiktar með spergilkáli og tómötum úr búð. Þetta er notalegt að borða með grænu salati. Góðir réttir þurfa ekki alltaf að vera flóknir. Rétt að taka það fram að ég steikti ekki tómatana, heldur henti þeim út á pönnuna þegar hitt var að verða tilbúið.
Tiltektin. Orðið ansi tómlegt um að litast í gróðurhúsinu, en Victor Borge er enn að blómstra og Rhapsody in Blue er með ótal knúbba.

Við keyptum þrjár hindberjaplöntur í haust og settum niður í framgarðinum. Spennandi að fá fullt af hindberjum næsta sumar.

Sumarið hefur verið lærdómsríkt í meira lagi og í næsta pistli ætla ég að tæpa á því helsta sem ég lærði. Það ætti að gera næsta sumar ennþá skemmtilegra og gómsætara.