Gómsæt sulta úr bláberjum og jarðarberjum

Á þessum árstíma sulta margir. Raða upp glerkrukkum með sultutaui þar til staflinn nær upp undir rjáfur 🙂 Sykur virkar sem rotvarnarefni svo þess vegna geymist dæmigerð sulta vikum og jafnvel mánuðum saman. Ég er löngu hætt að borða slíka sultu, en geri mína eigin sem inniheldur eingöngu ávaxasykurinn sem er í berjunum og ávöxtunum sem ég nota hverju sinni. Og stundum smá monk fruit eða stevíu. Þykki hana með chiafræjum og bragðbæti með vanillu eða kanil, svo dæmi séu tekin. Sultan mín geymist ekki nema í 1-2 vikur svo ég geri hana oft og hún er aldrei eins. Það má alveg eins nota frosin ber og ávexti, svo ef uppskeran er mikil að hausti er hægt að taka úr frystinum eftir hentugleikum. Þetta tekur ekki nokkra stund, svo það ætti ekki að fæla neinn frá. Hlutföllin eru heldur ekki heilög. Ég skelli oft bara þeim afgöngum sem ég á saman í pott 🙂

Innihald

1 bolli bláber

4-6 jarðarber

1/4 bolli rifsber

1/8 bolli vatn

2 msk chia fræ

1/2 tsk vanilla (ég nota hreint vanilluduft, ef þið notið dropa mæli ég með heilli teskeið)

Aðferð

Skerið jarðarberin í bita ef þau eru stór.

Skellið öllu í pottinn nema vanillu og sjóðið við lágan hita í u.a.b. 10 mínútur.

Hrærið vel í henni fyrst svo chiafræin dreifist vel og haldið svo áfram að hræra annað slagið í blöndunni svo ekkert festist við botninn.

Þegar þið finnið að berin eru farin að mýkjast og jarðarberin orðin laus í sér er ágætt að nota kartöflustappara, eða stóran gaffal, til að stappa aðeins. Smekkurinn er misjafn, sumir vilja hafa sultur grófar aðrir mjúkar. Hversu mikið þið stappið er sem sagt smekksatriði.

Að lokum er vanillunni bætt saman við, hrært vel í sultunni og hún smökkuð til.

Ég læt hana jafna sig aðeins áður en ég helli henni í krukku eða krukkur. Ein stór eða tvær litlar. Geymið í ískáp.

Sæluréttir Siggu er skrásett vōrumerki. Uppskriftirnar eru einungis ætlaðar til einkanota. Óheimilt er að nota þær í hvers kyns veitingaþjónustu án skriflegs leyfis frá eiganda vōrumerkisins. Dreifing, afritun, birting og ōnnur notkun uppskrifta og ljósmynda á síðunni er einnig óheimil án leyfis.