Hamingjan sanna

Það er löngu kominn tími á nýjan pistil um gleðina í gróðurhúsinu og garðinum, en þessa dagana ver ég meiri tíma við að sinna plöntunum og minni í að skrifa. Til að gera langa sögu stutta gengur allt mjög vel. Þó ekki sé liðið lengra á sumarið, júlí hálfnaður, borðum við heimaræktað salat, gúrkur, baunir, spínat, grænkál og jarðarber oft í viku. Að ekki sé minnst á kryddjurtirnar sem við notum á hverjum degi.

Veðrið hefur verið hagstæðara til ræktunar en í fyrra, þó undanfarið hafi ekki verið eins sólríkt og hlýtt á höfuðborgarsvæðinu og í vor og fram í júní. En myndir segja meira en þúsund orð, svo hér koma þær.

Tómatplönturnar eru stórkostlegar og komnar með fullt af tómötum. Þetta er Boney M. Hlakka ekki lítið til þegar þessir fara að roðna.
Ekki amalegt að skreppa út í hús og koma til baka með þetta.
Mismunandi yrki og mismunandi bragð, en hvort tveggja mjög gott!
Sú gamla sem gaf mest í fyrra heldur uppteknum hætti.
Nýju jarðarberjaplönturnar í turninum dafna vel og ef öll berin þroskast jafn fallega og þau sem við erum búin að prófa erum við í góðum málum 🙂
Þið munið kannski að ég prófaði að setja niður fresíulauka. Nú eru þær allar blómstrandi, dökkbleikar, hvítar og ljósbleikar. Ilmurinn er yndislegur!

Þröngt mega sáttir sitja 🙂
Skjaldflétturnar eru æðislegar! Þori varla að segja það upphátt en ég hef ekki enn fengið óværu í húsið og ef til vill er það þeim að þakka. Hafði þær hjá rósunum og tómötunum t.d.

Svo eru þær ætar líka og ég er búin að prófa að skreyta mat með þeim eins og sjá má á næstu mynd.

Mikill vöxtur í grænmetiskössunum líka. Selleríið er reyndar orðið stærra núna en á þessari mynd. Hugsa sér hvað þær voru agnarlitlar fyrir stuttu þegar ég var að forrækta. Það sem mér finnst skemmtilegt er að ég keypti til samanburðar forræktað sellerí í gróðrarstöð, en mín kríli voru mjög fljót að ná þeim í vexti.
Það er líka svolítið síðan þessi mynd var tekin. Kartöflugrösin orðin þéttari og stærri og mun meiri gróska í kössunum.

Verður gaman að fá blómkál, spergilkál og gulrætur. Plönturnar eru allar mjög heilbrigðar. Ennþá allavega.
Blóðberg og rósmarín í sátt og samlyndi.
Thai basil var góð viðbót þetta árið.
Ég forræktaði valmúa sem er að byrja að blómstra núna í nokkrum litum.

 

Elska lavender, eða lofnarblóm eins og það heitir á okkar ylhýra.
Og svo eru það rósirnar frá því í fyrra. Victor Borge er búin að blómstra eina umferð í sumar og ég geri ráð fyrir annarri síðsumars. Þvílík fegurð.
Sama má segja um Rhapsody in Blue. Hún var með ótal blóm um daginn en er búin í bili.

Get ekki mælt nógsamlega með ánægjunni sem fylgir því að rækta sér til matar og hafa þessa fegurð fyrir augunum alla daga.

Sæluréttir Siggu er skrásett vōrumerki. Uppskriftirnar eru einungis ætlaðar til einkanota. Óheimilt er að nota þær í hvers kyns veitingaþjónustu án skriflegs leyfis frá eiganda vōrumerkisins. Dreifing, afritun, birting og ōnnur notkun uppskrifta og ljósmynda á síðunni er einnig óheimil án leyfis.