Grilluð bleikja með kryddjurtasmjöri, kartöflum og gúrkusalati

Uppskeran úr gróðurhúsinu og garðinum er góð þessa dagana svo grænmeti og kryddjurtir í uppskriftinni koma þaðan. Þið þurfið ekkert endilega að nota svona margar gerðir kryddjurta, þó það sé nú ansi gott þegar maður hefur þær við hendina. Svo var ég svo heppin að geta unnið uppskriftina í samstarfið við Hafið og fékk gómsæta Klaustur bleikju frá þeim.

Best er að byrja á gúrkusalatinu og láta það taka sig í 30 mínútur. Sjóðið því næst kartöflurnar og takið þær til. Búið svo til græna kryddjurtasmjörið og haldið því heitu á mjög vægum hita meðan bleikjan er grilluð.

Gúrkusalat

Hráefni

50 g kokteil gúrkur, 

50 g snjóbaunir

50 g Lollo Rosso salat blöð

1 msk extra virgin ólífuolía, frá Filippo Berio

1 tsk Thai basilíka 

1/2 tsk safi úr límónu og álíka mikið af rifnum berki

salt og svartur pipar

Aðferð

Sjóðið snjóbaunirnar í hálfa mínútu og kælið þær. Skerið í tvennt eftir endilöngu.

Skerið Lollo Rosso blöðin í strimla og gúrkurnar í fingurlanga stauta. Saxið Thai basilíkublöðin.

Blandið öllu saman nema Lollo Rosso strimlunum og setjið svo blönduna á þá. 

Kartöflur

Hráefni

150 g nýjar kartöflur

1 msk ólífuolía, 

1 msk Thai basilíka, söxuð

1 msk graslaukur

 salt

Aðferð

Sjóðið kartöflurnar í léttsöltuðu vatni. Sigtið vatnið frá, skerið þær í tvennt og veltið þeim upp úr ólífuolíunni og kryddjurtunum.

Grænt kryddjurtasmjör

Hráefni

60 g vegan smjör, kubbur frá Naturli

4 msk extra virgin ólífuolía

1 msk ólífuolía

½ rauðlaukur, saxaður

1 msk kapers

4 hvítlauksgeirar, fínt saxaðir

Tvær vænar lúkur af ferskum kryddjurtum, t.d. steinselju, rósmarín, myntu, estragoni, blóðbergi og basilíku  

Aðferð

Saxið rauðlauk og hvítlauk. Saxið kryddjurtirnar smátt.

Steikið rauðlauk og hvítlauk létt í ólífuolíunni þar til hann er steiktur í gegn án þess að brúnast. 

Bætið kapers við og síðan vegan smjöri og extra virgin ólífuolíu. Bætið kryddjurtunum við og blandið vel saman við olíu- og smjörblönduna. Útkoman á að vera eins og falleg sósa.

Uppskriftin er unnin í samstarfi við Hafið.

Klaustur bleikja 

Hráefni

4-500 g bleikjuflök, roð og beinlaus

ólífuolía

salt og svartur pipar

Aðferð

Skerið bleikjuna í 2-3 bita eftir stærð.

Veltið bitunum upp úr ólífuolíu, salti og pipar.

Grillið fiskinn vel öðru megin á grilli eða grillpönnu (u.þ.b. 3 mínútur) snúið svo við og steikið í 1 mínútu. Takið bleikjuna af grillinu og látið hana hvíla í augnablik.

Raðið fiskinum fallega á disk með gúrkusalatinu og kartöflunum. Setjið kryddjurtasmjörið yfir bleikjuna og skreytið ef þið viljið. Ég notaði blóm Skjaldfléttu að gamni mínu.

Uppskriftin er unnin í samstarfi við Hafið.

Sæluréttir Siggu er skrásett vōrumerki. Uppskriftirnar eru einungis ætlaðar til einkanota. Óheimilt er að nota þær í hvers kyns veitingaþjónustu án skriflegs leyfis frá eiganda vōrumerkisins. Dreifing, afritun, birting og ōnnur notkun uppskrifta og ljósmynda á síðunni er einnig óheimil án leyfis.