Þegar þetta er skrifað er fyrsta óveður haustsins að ganga yfir landið. Appelsínugul viðvörun. Víða annars staðar væri það kallað vetrarveður. Við undirbjuggum gróðurhúsið fyrir veturinn um helgina og tókum upp gulrætur og kartöflur. Í ræktunarkössunum vex og dafnar selleríið enn, en allt annað komið inn í hús og ofaní maga. Í gróðurhúsinu bera tómatplönturnar ennþá ávöxt, á þeim hangir fjöldi grænna tómata. Sólarleysið gerir það að verkum að þeir verða sjálfsagt grænir áfram. Nokkur jarðarber eru enn að þroskast.
Sumarið hefur verið lærdómsríkt í meira lagi og í næsta pistli ætla ég að tæpa á því helsta sem ég lærði. Það ætti að gera næsta sumar ennþá skemmtilegra og gómsætara.