Gróskan, maður minn!

Það er skemmst frá því að segja að ræktunin gengur miklu betur en í fyrra, enda var maí einstaklega sólríkur í ár. Þegar ég skoða myndir frá síðasta ári virðist gróðurinn vera tæpum mánuði á undan núna. Við fengum gróðurhúsið heldur ekki fyrr en í júní í fyrra svo við gátum ekki forræktað í því þá. Það munar um að geta það núna. Myndin hér fyrir ofan er af litlu lyngrósinni sem við stungum niður í beð í fyrra og blómstraði svona fallega um miðjan maí. Hún er enn í fullum blóma.

Ef við byrjum á jarðarberjunum þá eru komin ber á þessar þrjár plöntur sem við keyptum í fyrra og lifðu af veturinn.

Þetta er sú stærsta sem gaf af sér mest síðasta sumar. Ekki langt í að þessi ber fari að roðna. Namminamm 🙂
Svona eru hinar báðar. Í fyrra fengum við bara örfá ber, en nú sýnist mér horfurnar vera betri.
Þess vegna ákváðum við að fjárfesta í turni og hafa fullt af jarðarberjum.

Öll forræktun hefur gengið mjög vel. Bæði á kryddplöntum, gúrkum, kokteil gúrkum, baunum, selleríi, bóndarós, fresíum og sumarblómum.

Þessi mynd er frá priklunardeginum mikla 🙂
Timian og sítrónumelissa í stuði.
Rósmarín, fáfnisgras (tarragon/estragon) og steinselja.
Hluti af gúrkuplöntunum og sykurbaunir í bakgrunni.
Sólblóm og hádegisblóm sem ég er að herða áður en þau fara í beð um næstu helgi.
Bóndarósarhnýðið sem ég keypti leit svo illa út að ég hélt það væri dautt. Það reyndist aldeilis ekki svo.
Ég var heldur ekki bjartsýn á framtíð fresíurnar, en hún er að byrja að blómstra.
Svona voru sellerí krúttin þegar ég umpottaði um miðjan maí.
Og hér bíða þau þess að fara í kassana 5. júní.
Komin í kassana og dafna vel.
Allt komið í kassana, m.a. salat, blómkál, gulrótarfræ og spergilkál.
Við erum svo æst í ræktuninni að við bættum við tveimur lok-lausum kössum og settum niður ýmislegt þar líka, s.s. spínat, grænkál meira salat, graslauk og nokkur sólblóm.

Það er svolítið síðan Rhapsody in Blue (Svana) kom með knúbba.
Og nú blómstrar hún á fullu.
Victor Borge (tengdó) er meira að segja líka komin með knúbb.
Tómatarnir frá Tómasi dafna frábærlega vel!
Fékk þessa fallegu pelargóníu að gjöf frá frænku minni. Hún minnir okkur á ömmu okkar.
Hún hefur stækkað og blómstrar eins og henni væri borgað fyrir það.
Litla kirsuberjatréð í framgarðinum blómstraði svona fallega í maí.

Ég var spennt í fyrra, en ennþá spenntari núna. Vona að við fáum gott sumar. Eina sem hefur verið áskorun þetta vor er að passa að ekki verði of heitt í húsinu því sólin er svo sterk.  Það hefur þó tekist vel, man passar bara að lofta vel.

Það eru ótrúleg lífsgæði sem fylgja því að hafa þessa matarkistu í bakgarðinum og fegurðina allt um kring. Ég er full þakklætis! 🌺

 

Sæluréttir Siggu er skrásett vōrumerki. Uppskriftirnar eru einungis ætlaðar til einkanota. Óheimilt er að nota þær í hvers kyns veitingaþjónustu án skriflegs leyfis frá eiganda vōrumerkisins. Dreifing, afritun, birting og ōnnur notkun uppskrifta og ljósmynda á síðunni er einnig óheimil án leyfis.