Þolinmæði þrautir vinnur allar

Sem byrjandi í ræktun grænmetis og kryddjurta fannst mér ágúst skemmtilegasti mánuðurinn. Hann var hlýrri og eilítið sólríkari en fyrri mánuðir, svo m.a.s. tómatarnir byrjuðu loksins að roðna.

Suma daga var uppskeran svona og þá var nú kátt í höllinni.

Spergilkál, rauðrófa, sellerí og Lollo Bionda salat úr ræktunarkössunum og gúrkur, tómatar, kúrbítur, baunir, jarðarber og kryddjurtir úr gróðurhúsinu.

Framan af sumri hélt ég að tómatarnir yrðu bara svona og við myndum á endanum borða steikta græna tómata í öll mál 🙂

En þolinmæði þrautir vinnur allar og mikið var gaman að sjá þá byrja að roðna.
Á endanum urðu þeir fullþroskaðir einn af öðrum og afskaplega ljúffengir.
Jarðarberin roðnuðu líka eðli málsins samkvæmt og við fengum rokna uppskeru af einni plöntunni, minna af annarri og nánast enga af tveimur minni.
Litlu gúrkurnar voru að sperra sig alveg fram í september og gáfu meira en allar aðrar plöntur í húsinu. Mun sannarlega rækta frá sams konar fræjum næsta vor.
Og stóra gúrkuplantan lét ekki sitt eftir liggja. Þó gúrkurnar væru færri yfir sumarið hætti hún aldrei að framleiða.
Sama má segja um kúrbítsplöntuna, sem gaf af sér fram til 10. september.
Úr ræktunarkössunum komu dýrindis rauðrófur

Og líka spergilkál, salat og spínat.
Þegar þetta er skrifað er ennþá mikil sellerí uppskera en við eigum eftir að taka gulræturnar upp. Þær eru mánuði seinna á ferðinni en í fyrra.
Við tókum undan fyrsta kartöflugrasinu á dögunum. Allar þessar kartöflur komu undan einu grasi.
Victor Borge er að blómstra öðru sinni. Vona að elsku rósin nái að opna alla knúbbana fyrir næturfrost.

Hér er svo frú Blöndal! Hortensía sem blómstrar stanslaust.