Lærdómurinn

Það snjóar! Ekki mikið en örþunn föl liggur yfir bakgarðinum. Hitinn við frostmark í höfuðborginni og brjálað veður á Norðurlandi. Þar er stormur og stórhríð 28. september. Mér finnst að veturinn hafi komið snemma, jafnvel fyrir Ísland.

Sem betur fer vorum við búin að taka upp kartöflur og rabbarbara og fá góða uppskeru. Ég veit ekki hvernig verður með selleríið sem eftir er í ræktunarkössunum. Ég veit heldur ekki hvort tómatarnir halda áfram að þroskast í gróðurhúsinu og Rhapsody in Blue nær að opna knúbbana. Kemur í ljós.

Á svona degi er gott að fara yfir sumt af því sem ég hef lært í sumar.

Ég áttaði mig frekar seint á að það þyrfti að frjóvga kúrbítinn. Taka blómin af karlkyns kúrbítnum og nota það til að frjóvga kvenkyns kúrbítinn. Þegar ég loksins lærði það var framkvæmdin nánast ómöguleg og minnti mig á ástamálin mín fyrrum daga. Í hvert skipti sem kvenkyns kúrbíturinn blómstraði fallega voru engir karlkynskúrbítar. En þegar blómið var fallið spruttu upp 5 karlkyns kúrbítar á plöntunni 🙂

Ég lærði líka að það þarf að klippa renglurnar reglulega af jarðarberjaplöntunum ef maður ætlar ekki að nota þær sem græðlinga. Annars leggur plantan svo mikla næringu í vöxt þeirra að hún myndar minna af berjum. Ég var aðallega að dást að berjunum þegar ég myndaði plönturnar mínar í sumar svo ég tók aldrei mynd af renglunum, en fann ágætis teikningu á netinu til útskýringar. Renglur heita runners á ensku.

Það þarf líka að klípa þjófa af gúrkum. Þjófa hvað… hugsaði ég þegar ég heyrði það fyrst. Á ensku eru þeir kallaðir suckers. Þetta eru vaxtarsprotar sem byrja að vaxa í V-inu milli stofngreinanna og greinanna sem tómatarnir vaxa á. Best að klípa þá af meðan þeir eru litlir svo þeir steli ekki næringu. Á heldur ekki mynd af þeim, en ef þið notið Gúgglu frænku finnið þið upplýsingar. Sama á við um gúrkur. Annað sem er mikilvægt í tómatarækt er að vökva reglulega. Hvort sem þið eruð að vökva á 3 eða 4 daga fresti þarf það að haldast þannig. Annars geta plönturnar farið í smá fýlu 🙂

Ég áttaði mig á að við notum svo mikið af kryddplöntum í eldamennsku að það borgar sig að rækta miklu meira af þeim næsta sumar.

Hér eru nokkrir punktar til viðbótar:

Pottastærð:

Ég er ekki með beð í gróðurhúsinu svo þegar kemur að pottastærð eru þeir nánast aldrei of stórir. Ég hefði þurft að hafa tómatana, gúrkurnar, kúrbítinn og sérstaklega baunirnar í miklu stærri pottum. Vissulega þurfa krílin að byrja vöxtinn í minni pottum en svo má planta í stóra. Risastóra. Baunirnar þarf ekki að forrækta og geta farið strax í stóra potta. Passa mig á þessu næst.

Loftun og grámygla:

Loftun er gríðarlega mikilvæg. Ekki bara til þess að ekki verði of heitt í húsinu. Maður þurfti nú sjaldan að hafa áhyggjur af því. Í kalda og raka loftinu framan af sumri var líka geysilega mikilvægt að lofta vel út. Það nægði ekki einu sinni, því ég þurfti að skoða plönturnar á hverjum degi, og stundum tvisvar á dag, og klípa eða skera af þeim blöð eða stilka sem voru byrjuð að mygla. Með því tókst mér að halda grámyglu alveg í skefjum.

Blaðlús

Eina leiðin til að losna við blaðlús er að sleppa því að rækta blóm og grænmeti sagði góð kona við mig í sumar. Það reyndist rétt. Rósirnar mínar biðu mín grálúsugar þegar ég trítlaði út einn morguninn. Mér tókst að halda þeim í skefjum með sápublöndu. Þið getið lesið um það HÉR. Það er mikil vinna og lífið varð margfalt einfaldara eftir að ég fékk mér lífrænar varnir hjá Innigörðum. Mun nota þær næsta sumar líka.

Ást

Ég er sannfærð um að plönturnar kunna vel að meta félagsskap og jafnvel að maður rauli fyrir þær. Ég hef engar rannsóknir sem styðja það, en held að það sé ein af aðal ástæðunum fyrir hve vel gekk í sumar þrátt fyrir reynsluleysi og slæmt veðurfar. Ég finn það bara á þeim.

Haustverkin eru að mestu yfirstaðin, að hlífa viðkvæmum gróðri, setja niður hindberjarunna og vorlauka. Við eigum von á hvítlauk frá Garðyrkjufélaginu sem við ætlum að pota niður í von um góða uppskeru að ári.

Ég er viss um að ég er að gleyma mörgu og enn á ég margt ólært. En þó nú sé napurt úti og veturinn hér sé langur er ég strax farin að hlakka til að forrækta næsta vor.