Blaðlús elskar rósir

Tæpar sex vikur síðan við fengum gróðurhúsið og það veitir okkur ómælda ánægju á hverjum degi. Ég segi nú ekki að ég hafi verið að bíða eftir að það kæmi óværa í húsið, en vissi að það hlyti að koma að því. Svo var það einn morguninn að ég sá eitthvað sem leit út eins og hvítt duft á blöðum Victor Borge rósarinnar. Þegar ég tók myndir af knúbbunum og stækkaði þær var ekki um villst, blaðlúsin var mætt. Hún var eldsnögg að koma sér yfir á Rhapsody In Blue líka.

Ég leitaði ráða hjá ræktunarhópi á Facebook og kom aldeilis ekki að tómum kofanum. Sápa, sítrónudropar og hvítlaukur voru nefnd svo fátt eitt sé nefnt. Mér var líka sagt frá lífrænum vörnum sem hægt væri að fá í Innigörðum. Minnug þess að Svana frænka spreyjaði sínar fallegu rósir með brúnsápu ákvað ég að byrja á að prófa þá aðferð. Stakk líka heilum hvítlauksrifjum í pottana.

Nú hef ég verið dugleg með brúnsápuna kvölds og morgna í fimm daga. Gæti þess að hafa blönduna mjög væga og þvo rósirnar vel á eftir. Það er greinilegt að aðferðin virkar en þó sé ég ennþá nokkrar lúsir á hverjum degi. Ákvað að panta lífrænu varnirnar hjá Innigörðum og nota þær til að ná rest.

Ég var hræddust um að knúbbarnir myndu ekki ná að springa út vegna blaðlúsanna, en þær eru greinilega að reyna sitt besta þessar elskur.

Ilmurinn af Rhapsody in Blue er dásamlegur þó hún sé ekki alveg sprungin út.

Sæluréttir Siggu er skrásett vōrumerki. Uppskriftirnar eru einungis ætlaðar til einkanota. Óheimilt er að nota þær í hvers kyns veitingaþjónustu án skriflegs leyfis frá eiganda vōrumerkisins. Dreifing, afritun, birting og ōnnur notkun uppskrifta og ljósmynda á síðunni er einnig óheimil án leyfis.