Fyrir líkama og sál

Það er ólýsanlega góð tilfinning að geta tekið inn grænmeti og jurtir úr húsinu á hverjum degi. Við erum byrjendur og húsið lítið, svo ég get ekki einu sinni ímyndað mér hvernig það er að fá heilmikla uppskeru og geta gefið almennilega með sér.

Fyrir utan kóríander og baunir eru það litlu gúrkurnar sem hafa verið í mestu stuði. Sjálfsagt tilviljun, en einmitt þetta ræktaði ég frá fræi. Í síðasta pósti sagði ég að trúlega væri ástæða til bjartsýni þó ég hefði sett fræin niður of seint, því gúrkuplönturnar væru svo sprækar. Það reyndist rétt. Þær hafa gefið af sér margar og einstaklega ljúffengar gúrkur.

Munið þið eftir stóru gúrkunni af plöntunni sem ég keypti í gróðrarstöð? Ég velti fyrir mér hvort þær minni á sömu plöntu myndu taka við sér þegar hún hætti að taka frá þeim alla næringu. Það gerðist. Nú stækka þrjár þeirra hratt.

Við höfum fengið þó nokkra tómata af Vilmu, cherry tómata plöntunni. Stóru tómatarnir vaxa líka vel, en þeir eru ennþá grænir. Líklegt að sólarleysið hér í höfuðborginni hafi eitthvað með það að gera. Eða kannski er ég bara óþolinmóð 🙂

Jarðarberin dafna vel, en þó stækkar ein plantan mun meira en hinar og ég hef ekki tölu á berjunum sem eru að þroskast á henni. Má passa mig að slefa ekki þegar ég er í návist hennar 🙂 Töluvert í að þau byrji að roðna, svo ég verð að stilla mig.

Eitt er víst, að ég sé sannarlega ekki eftir því að hafa byrjað að rækta mat og gleðigjafa.

Sæluréttir Siggu er skrásett vōrumerki. Uppskriftirnar eru einungis ætlaðar til einkanota. Óheimilt er að nota þær í hvers kyns veitingaþjónustu án skriflegs leyfis frá eiganda vōrumerkisins. Dreifing, afritun, birting og ōnnur notkun uppskrifta og ljósmynda á síðunni er einnig óheimil án leyfis.