Í sumarlok

Þá er sumarið á enda runnið og þrátt fyrir leiðinda tíð frá miðjum júní og þar til síðla þessa mánaðar hefur ræktunin gengið bærilega. Í þriðju viku ágústmánaðar byrjuðu tómatarnir að roðna hratt og vel og sólblómin sprungu loksins út. Sama má segja um bessuð hádegisblómin, sem eingöngu opna sig þegar sólin skín. Rósirnar hafa hins vegar ekki blómstrað aftur eins og þær gerðu í fyrra. Ég veit ekki hvers vegna. Ef til vill vegna þess að ég færði þær á annan stað í húsinu.

Þetta sumar höfum við sloppið algjörlega við alla óværu og fyrir það er ég þakklát. Við settum tómatplönturnar of þétt í beð, en lærum af því. Einu vonbrigði sumarsins voru að fáfnisgrasið/tarragonið var mjög bragðdauft.

Hins vegar var bragðið af hvítlauknum sem við settum niður síðasta haust algjörlega himneskt og ekki spurning að við endurtökum leikinn á þessu ári. Einstaklega auðvelt að rækta hvítlauk því hann sér eiginlega bara um sig sjálfur. En myndir segja meira en þúsund orð svo hér koma þær.

Hvítlaukurinn gómsæti í forgrunni og kryddjurtir á bak við. Blessað grænkálið til hliðar.
Að kaupa tómatplöntur hjá Tómasi Ponzi var ein besta ákvörðun sem við höfum tekið í ræktuninni. Við höfðum heyrt að þegar maður bragðaði tómata frá honum væri það eins og að smakka tómata í fyrsta sinn. Engu logið um það. Þeir eru einstaklega bragðgóðir og dafna vel í köldu húsi. Nú er bara að læra að taka úr þeim fræin. Þessi heitir Boney M. Mjög gjöfult yrki.

Mikil lífsgæði að eiga alltaf fullt af ferskum kryddjurtum.

Hér koma myndir af uppskerunni tvo mismunandi daga seint í ágúst.

Parísargulræturnar geymast vel og við erum enn að borða þær sem snakk þremur vikum eftir að við tókum þær upp. Í heildina fengum við um 5 kíló af kartöflum. Helmingi meira en í fyrra.
Jarðarberin eru í miklu uppáhaldi og við sjáum sko ekki eftir að hafa fengið okkur turn og miklu fleiri plöntur. Nú höfum við átt ber alla daga í 2 mánuði.

Barnabarnið kann vel að meta gúrkur, tómata og jarðarber úr gróðurhúsinu. Jarðarberin eru í einstöku uppáhaldi.
Vinnukona mundar hrífu 🙂
Sellerí notum við líka mikið. Í fyrra var ég enn að fá uppskeru í október og vona að það verði þannig líka núna.

Safi úr gúrkum og sellerí. Hollur og góður.
Salat notum við líka mikið og dreymir um að rækta meira af því næst.
Ekki amalegt blómkál. Eplið setti ég til að sýna stærðina.

Spergilkálið var ljúffengt líka. Gallinn við blómkál og spergilkál er að þar sem við höfum lítið pláss er uppskeran ósköp lítil.

 

Sólblómin voru lengi að opna sig en falleg eru þau.

Rabbarbari er ómissandi.
Og lavender líka.

Ilmurinn er dásamlegur. Set stundum í vasa og hef í svefnherberginu.
Ég prófaði í fyrsta skipti að rækta valmúa og það lukkaðist vel.

Hindberjaplönturnar sem við settum niður í fyrra gáfu aðeins af sér örfá ber, en mikið voru þau góð 🙂

Að lokum eru hér myndir af mat úr hráefnum sem koma beint úr garði, ræktunarkössumm og gróðurhúsi. Nammi namm… 🙂

Uppskriftin að þessum bökuðu kartöflum og spergilkáli má finna HÉR.

Hér eru svo tómatarnir góðu úr gróðurhúsinu með grænni sósu úr blóðbergi og steinselju. Algjört sælgæti.
Jarðarber úr gróðurhúsinu með granóla og dökku súkkulaði. Uppskriftin kemur inn 1. september.

Sæluréttir Siggu er skrásett vōrumerki. Uppskriftirnar eru einungis ætlaðar til einkanota. Óheimilt er að nota þær í hvers kyns veitingaþjónustu án skriflegs leyfis frá eiganda vōrumerkisins. Dreifing, afritun, birting og ōnnur notkun uppskrifta og ljósmynda á síðunni er einnig óheimil án leyfis.