Bakaðar rauðar og spergilkál með blómkálsmauki og salsa –  Heimaræktað

Fátt er betra en nýupptekið smælki og grænmeti og kryddjurtir úr gróðurhúsinu og garðinum. Ágúst er gjöfulastur mánuða hvað þetta varðar, og í þessum rétti er allt þaðan nema ólífuolía, sítrónusafi, jurtamjólk, rauðlaukur, kapers, salt og svartur pipar. 

Uppskeran einn daginn. Sumt af þessu fór í réttinn góða.

Hráefni

300 g kartöflur

200 g spergilkál

2-3 blóðbergsstilkar

2-3 rósmarínstilkar

2 hvítlauksgeirar

ólífuolía

salt og svartur pipar

1 parísargulrót, skorin í flögur til skreytingar

Þessi hvítlaukur sem við settum niður í fyrra haust er alveg einstakur! Þvílíkt bragð.

Aðferð

Forhitið ofninn í 220 °C.

Hreinsið grænmetið og skrælið hvítlaukinn. Skerið kartöflurnar í tvennt og skiptið spergilkálinu í kvisti. 

Veltið kartöflum og spergilkáli upp úr ólífuolíu.

Setjið kartöflurnar í ofnskúffu ásamt 2 hvítlauksgeirum, sem þið merjið aðeins fyrst, blóðbergsstilkum og rósmaríni og bakið í u.þ.b. 15 mínútur eða þar til þær hafa tekið fallegan lit. Ofnar eru misjafnir. Takið þær svo út úr ofninum og látið hvíla.

Setjið þá spergilkálið inn í ofninn og bakið það í u.þ.b. 5 mínútur.

Eplið er til að sýna stærðina.

Blómkálsmauk

Hráefni

300 g blómkál

4-5 hvítlauksgeirar

1-2 rósmarín, nálar

1-2 blóðbergsstilkar, laufin

1 dl haframjólk, eða möndlumjólk

salt og svartur pipar

Aðferð

Skrælið hvítlaukinn, skiptið blómkálinu niður í kvisti og takið laufin af blóðbergsstilkunum og nálarnar af rósmarínstilkunum.

Setjið allt í pott og látið malla við lágan hita þar til blómkálið er orðið mjúkt.

Maukið með töfrasprota eða í blandara.

Salsa úr gúrkum og tómötum

Hráefni

2 tómatar

1/2 gúrka, eða tvær kokteil gúrkur

1 msk rauðlaukur, saxaður

2 litlir stilkar sellerí, athugið að um er að ræða lífrænt og smágert sellerí

1 msk sítrónusafi

1 msk ólífuolía

4 hvítlauksgeirar 

1 msk saxað ferskt kóríander (má sleppa) 

1 msk söxuð fersk steinselja 

salt og svartur pipar

Aðferð

Skerið tómata og gúrkur í litla teninga. Saxið rauðlauk, hvítlauk og sellerí fínt. Sömuleiðis kóríander og steinselju.

Setjið allt í skál og blandið ólífuolíu og sítrónusafa saman við. Saltið og piprið eftir smekk.

Græn kryddjurtasósa

Hráefni

100 g ólífuolía

safi úr lítilli sítrónu eða hálfri stórri

handfylli af steinselju

handfylli af estragon

1 msk graslaukur, gróft saxaður

1 msk kóríander, gróft saxaður (má sleppa)

1 msk basil, gróft saxað

1 msk kapers

Aðferð

Hreinsið og afhýðið hvítlaukinn. 

Setjið allt í blandara og maukið þar til sósan verður mjúk og falleg.

Setjið blómkálsmaukið í botninn og hrúgið kartöflum og spergilkáli yfir. Skreytið með gulrótarflögum ef vill og berið gúrku- og tómatasalsað og grænu kryddjurtasósuna fram með. 

Líka hollt og gott að hrúga spírum frá Ecospíra ofan á.

Sæluréttir Siggu er skrásett vōrumerki. Uppskriftirnar eru einungis ætlaðar til einkanota. Óheimilt er að nota þær í hvers kyns veitingaþjónustu án skriflegs leyfis frá eiganda vōrumerkisins. Dreifing, afritun, birting og ōnnur notkun uppskrifta og ljósmynda á síðunni er einnig óheimil án leyfis.