Hugmyndir að jólagjöfum

Nú keppast fjölmiðlar við birta lista yfir spennandi hluti í jólapakkana. Græjur sem kosta skrilljón eru fastagestir á þessum listum ár eftir ár, ásamt hönnunarvörum sem kosta hvítuna úr augunum. Jólagjafalistar sem fá kelluna sem þetta skrifar til að ranghvolfa augunum eins og hneykslaður unglingur.

Ég þekki hins vegar vel hvað maður getur verið andlaus þegar kemur að jólagjöfum svo hér koma nokkrar hugmyndir.

  1. Sú sem liggur best við að gefa þessi jól er frá Unicef. SANNAR GJAFIR eru t.d. bólusetningar pakki, hlý föt, námsgögn eða næringarmjólk. Það er líka hægt að gerast heimsforeldri.
  2. Árið 2008 ákváðum við að byrja að byrja að styrkja SOS barn í stað þess að gefa jólagjafir innan fjölskyldunnar. Ein besta ákvörðun sem við höfum tekið. Þá var Akile litla tveggja ára og það hefur verið gefandi og skemmtilegt að fylgjast með henni verða að hæfileikaríkri ungri stúlku.
  3. Stundum langar mann að gefa eitthvað áþreifanlegt og heimatilbúnar gjafir eru yfirleitt mjög vel þegnar. Í fyrra gáfum við öllum pakka með sykurlausri sultu, pikkluðu grænmeti og marmelaði. Það mældist vel fyrir. Það er líka hægt að búa til nammi eða baka smákökur og pakka fallega inn.
  4. Heimatilbúnar gjafir þurfa ekki endilega að vera ætar. Mér þykir ógnarvænt um gjafir sem hafa verið búnar til handa mér og ég hengi á jólatréð ár eftir ár. Jólasveinn sem strákurinn minn perlaði þegar hann var sex ára er í sérstöku uppáhaldi og jólatré úr tölum sem jógakennarinn minn laumaði inn um bréflúguna hjá mér í fyrra. Þeir sem eiga börn eða barnabörn geta athugað hvort þau hafa gaman af að búa til jólagjafir með þeim, en svo má líka finna skemmtilegt heimatilbúið dót með því að fara á basar eða markaði.
  5. Góði hirðirinn lumar á hinu og þessu sem er gaman að setja í jólapakkann. Sama má segja um Rauða kross búðirnar og fleiri staði sem selja notaða hluti og föt.
  6. BÆKUR! Það eru engin jól án bóka. Það er einnig hægt að gefa tónlist eða gjafabréf í Bíó Paradís án þess að fara á hausinn. Leikhúsmiðar eru líka góður kostur.
  7. Að safna list. Oft er hægt að finna list eða hönnun í jólapakkann hjá listamönnum sem eru að taka sín fyrstu skref. Áður en verkin verða svo dýr að maður hefur ekki efni á þeim. Ég neita því ekki að það er gaman að gefa sínum nánustu dýrari listaverk líka, ef fjárhagurinn leyfir. Listamenn þræla oftar en ekki nánast launalausir framan af ferlinum svo það er gott að geta styrkt þá. Lífið væri fátæklegt án listar.
  8. Gæðastundir eru fínasta gjöf. Þið vitið best hvað fjölskyldu og vinum finnst skemmtilegt að brasa, svo þið getið útbúið gjafabréf upp á slíkar stundir með ykkur.
  9. Undanfarin ár hef ég gefið ungum konum í kringum mig skartgripi og samkvæmisveski, sem ég hef átt lengi og tekið eftir að þær eru hrifnar af. Það er persónulegt og gaman að gefa svoleiðis jólagjöf.
  10. Þessi hugmynd er frænka númer 4. Ekki hafa allir gaman af að föndra eða elda, en vilja kannski heldur skrifa ljóð eða sögu, teikna mynd, taka upp lag, eða smíða eitthvað. Það er alltaf gaman að fá sköpunarverk þeirra sem manni þykir vænt um í jólapakkann, sama hvað það er.

Ég hef safnað leirmunum frá Margréti Jónsdóttur frá því á níunda áratug síðustu aldar. Gleðst ógurlega í hvert skipti sem eitthvað bætist í safnið, smátt sem stórt.

Vona að þessi listi hjálpi ykkur og þið njótið aðventunnar 🙂

Sæluréttir Siggu er skrásett vōrumerki. Uppskriftirnar eru einungis ætlaðar til einkanota. Óheimilt er að nota þær í hvers kyns veitingaþjónustu án skriflegs leyfis frá eiganda vōrumerkisins. Dreifing, afritun, birting og ōnnur notkun uppskrifta og ljósmynda á síðunni er einnig óheimil án leyfis.