Eins og mig grunaði er gaman að eiga gróðurhús að vori til.
Það var rosalegt eldhúspartý í gangi kringum 20. apríl. Þá ákváðum við að setja lítinn ofn út í gróðurhús, ég prikkaði, og svo fóru flestar plönturnar út. Þær virðast dafna með eindæmum vel, ég krossa enn fingur og vona að allt verði í lagi. Eina af fyrstu nóttunum gleymdi ég glugganum opnum, en þrátt fyrir næturfrost virðist þessum elskum ekki hafa orðið meint af því nú er 5. maí og allt í góðu enn.
Það verður sólblómahaf í garðinum í sumar. Hér sjáið þið nokkur af þeim sem ég sáði fyrir. Bak við glittir í græðlinga af t.d. selleríi, steinselju, fáfnisgrasi og nokkrum hádegisblómum.
Jarðarberjaplönturnar koma rosalega vel undan vetri. Um leið og ég hreinsaði allt dautt og umpottaði í stærri potta fóru þær að spretta hratt og nú er ein þeirra farin að gera sig líklega til að koma með ber.
Við keyptum nokkur yrki af tómötum hjá Tómas Ponzi, enda alltaf heyrt einstaklega vel látið af kuldaþolnu tómötunum hans. Tómas mælti með að við gerðum beð í gróðurhúsið, þó lítið sé, og við hlýddum 🙂 Þarna eru meðal annars Boney M, Stupice, Bujan Zholty og svo gaf Tómas okkur nýtt yrki sem hann hefur verið að þróa. Það var mjög gaman að skoða ræktunina hjá honum í Mosfellsdal.
Pokusa kirsuberjatómatarnir eru samt í pottum.
Gúrkuplöntur að bíða eftir að verða stórar 🙂
Jarðarberjaplöntur og sykurbaunir í stuði.
Eina sem ég sé eftir er að hafa ekki sáð fyrir fleiri skjaldfléttum. Þær eru fallegar, gómsætar og auk þess skordýrafælur. Bæti úr því næsta sumar.
Geggjað að geta strax notað ferskt og gott rósmarín.
Rósirnar eru löngu vaknaðar af vetrardvalanum og glaðar mjög.
Ekki allt farið úr eldhúsinu, því þar er t.d. enn þessi fína steinselja. Sáði bæði fyrir flatri og krullu. Nú hlýtur hætta á næturfrostum að fara að líða hjá.
Þetta er spennandi tími!
Sæluréttir Siggu er skrásett vōrumerki. Uppskriftirnar eru einungis ætlaðar til einkanota. Óheimilt er að nota þær í hvers kyns veitingaþjónustu án skriflegs leyfis frá eiganda vōrumerkisins. Dreifing, afritun, birting og ōnnur notkun uppskrifta og ljósmynda á síðunni er einnig óheimil án leyfis.