Sítrónupasta Sophiu Loren, vegan og glútenlaust

Sophia Loren fengi sjálfsagt aðsvif ef hún kæmist að þessari tilraun minni þó reyndar hafi hún sagt að uppskriftir væru aldrei heilagar og um að gera að breyta þeim. Trúlega hefur hún þó ekki átt von á að einhver tæki sig til og breytti sítrónupastanu hennar svona svakalega. Það er líklegra að matgæðingurinn Sigurlaug Margrét Jónasdóttir komist að brasinu í mér, hristi hausinn og flissi aðeins. Hún kynnti nefnilega þennan guðdómlega rétt fyrir Íslendingum og þykir ég sjálfsagt ansi brött. Ég vona að báðar fyrirgefi mér að reyna að breyta þessum dásemdar rétti þannig að fólk með mataróþol geti notið hans.

Í þetta skipti hafði ég asparagus með og reif vegan parmesan yfir.

Hráefni

2 sítrónur, safinn

2-3 hvítlauksrif

2 lúkur basilíka

1 bolli Violife mozzarella ostur, rifinn

1/4 bolli Violife parmesan ostur, rifinn

60 g Veganz kasjúostur, hreinn

1/2 bolli haframjólk

vegan smjör til steikingar, kubbur frá Naturli

vatn

salt og svartur pipar

250 g hrísgrjónapasta, frá Rapunzel

Aðferð

Sjóðið pastað og sigtið vatnið frá.

Kreistið safann úr 2 sítrónum og setjið hann í bollamál. Vatn er sett saman við þar til bollinn er fullur. Sophia Loren notar vatnið af pastanu en það geri ég ekki þar sem um er að ræða hrísgrjónapasta.

Saxið hvítlauk og basilíku.

Bræðið svolítið vegan smjör á stórri pönnu og steikið hvítlaukinn aðeins í því. Gætið þess vel að hann brúnist ekki því þá verður hann beiskur. 

Hellið sítrónusafanum út í og sjóðið aðeins niður. Það gerist frekar hratt.

Bætið rifna Violife ostinum út og hrærið stanslaust meðan hann er að bráðna út í. Síðan kemur haframjólkin og sósan hituð aftur að suðu.

Að því loknu er best að taka plötuna af hitanum og setja rifna parmesan ostinn út í og basilíkuna. Hrærið meðan það er að bráðna saman og bætið svo soðna pastanu út í og blandið vel saman. 

Það er ljómandi að borða þetta eitt og sér en mér finnst líka gott að bæta aspargus út í eða reyktum silungi. Ábyggilega margt fleira gott með líka, þið notið bara hugmyndaflugið. Grænt salat fer einkar vel með þessum rétti.

Þessi uppskrift er unnin í samstarfi við Rapunzel.

Sæluréttir Siggu er skrásett vōrumerki. Uppskriftirnar eru einungis ætlaðar til einkanota. Óheimilt er að nota þær í hvers kyns veitingaþjónustu án skriflegs leyfis frá eiganda vōrumerkisins. Dreifing, afritun, birting og ōnnur notkun uppskrifta og ljósmynda á síðunni er einnig óheimil án leyfis.