Karrílauf

Karrílauf gera flest betra. Ég kynntist þeim þegar ég bjó í London og var að fikra mig áfram að elda indverska rétti. Bragðið af þeim er alveg einstakt og laufin gefa góðan hita án þess að bragðið sé svo sterkt að maður krumpist í framan. Undanfarin ár hef ég notað karrílauf mikið, jafnvel í aðra rétti en indverska, eins og t.d. í þessa eggjaköku.

Þrátt fyrir nafnið er rétt að rugla þeim ekki saman við karríduft, það er tvennt ólíkt. Karrílaufin vaxa á Karrí-trjám, þið getið lesið grundvallar upplýsingaar um þau HÉR. En fyrir þá sem hafa áhuga á svona bendi ég á þessa ítarlegu og skemmtilegu GREIN. Karríduft er hins vegar kryddblanda úr kóríander, cumin, túrmerik og cayenne. 

Þessi bragðgóðu lauf eru notuð mikið í réttum frá Suður-Indlandi, enda upprunnin þaðan. Þar notar fólk líka karrílauf til að hella upp á te og það er býsna gott. Þau ku vera mjög holl og jafnvel hafa lækningamátt. Í það minnsta innihalda þau fjölda vítamína, svo sem A, B2, C og járn. 

Hægt er að nota karrílauf bæði þurrkuð og frosin, en langbest að nota fersk ef þau fást þannig. Ég hef keypt þau í Asíu mörkuðunum hér í borginni, bæði fersk og frosin. Stundum fást þau ekki fersk mánuðum saman, en þegar þau koma nota ég þau fersk fyrstu dagana og frysti svo afganginn. Karrílauf eru nefnilega seld í stórum pokum, en eru hræbilleg. 

Mæli innilega með þeim til að lífga upp á tilveruna.

Fleiri réttir á síðunni sem innihalda karrílauf eru; Grillað grænmeti í indverskum kryddlegi, Indverskur blómkáls- og kjúklingabaunaréttur, Aloo Baigan og Grillað grænmeti í sterkum kryddlegi.

Grillað grænmeti í indverskum kryddlegi.

Sæluréttir Siggu er skrásett vōrumerki. Uppskriftirnar eru einungis ætlaðar til einkanota. Óheimilt er að nota þær í hvers kyns veitingaþjónustu án skriflegs leyfis frá eiganda vōrumerkisins. Dreifing, afritun, birting og ōnnur notkun uppskrifta og ljósmynda á síðunni er einnig óheimil án leyfis.