Grillað grænmeti í indverskum kryddlegi

Hráefni

kryddlögur 

400 ml ólífuolía

1 rauður chilli

1/2 tsk chilli flögur

2 msk saxaður engifer

7-8 hvítlauksgeirar

1 msk indversk karrýblanda

1/2 tsk sumac

1/2 tsk marókósk harissa 

1/4 tsk kóríanderduft

2 msk ferskur, saxaður kóríander (má sleppa)

annað

1 eggaldin

50 g spergilkál

25 g strengjabaunir (líka hægt að nota snjóbaunir eða sykurbaunir)

100 g gulrætur

100 g blómkál

100 g kartöflur

10 stk litlir grænir tómatar (má líka nota rauða)

50 g radísur 

1 laukur

1 rauður chilli

1 dós kjúklingabaunir

Þessi uppskrift er unnin í samstarfi við Kryddhúsið.

Aðferð

Stillið ofninn á grill.

Skrælið hvítlaukinn, skafið engiferið og setjið það sem fara á í kryddlöginn í blandara. Blandið saman þar til allt hefur samlagast.

Skrælið laukinn og skerið í 6 báta. Skrælið gulrótina og skiptið spergilkálinu og blómkálinu niður í kvisti. Skerið eggaldin í grófa bita. Kartöflur og tómatar eru skornir í tvennt. Sigtið vökvann frá kjúklingabaununum.

Takið þrjár skálar og setjið gulrætur og kartöflur í eina þeirra, eggaldin, blómkál, spergilkál, baunir og radísur í aðra og kjúklingabaunir í þá þriðju.

Setjið kryddlög yfir innihald hverrar skálar og veltið grænmetinu upp úr honum. Sama með kjúklingabaunirnar. Skiljið aðeins eftir af kryddleginum til að setja saman við vegan mayo, sem gott er að bera fram með réttinum. 

Leyfið öllu að marinerast í kryddleginum í u.þ.b. 30 mínútur.

Að þeim tíma loknum eru gulrætur og kartöflur settar í ofnskúffu og grillaðar í u.þ.b. 10-15 mínútur eða þar til þær eru fallega bakaðar. Ofnar eru misjafnir. Takið þær svo út úr ofninum og látið hvíla.

Grillið þá græmetið sem þarf skemmri tíma; eggaldin, blómkál, spergilkál, baunir og radísur efst í ofninum í 7-8 mínútur.  

Á meðan eru kjúklingabaunirnar steiktar aðeins á pönnu og tómatarnir settir saman við í lokin. 

Skerið chilli eftir endilöngu og fræhreinsið. Skerið það í þunnar sneiðar.

Blandið öllu grænmetinu og kjúklingabaununum saman á fat. Dreifið chilli sneiðunum yfir. Einnig hægt að skreyta með ferskum kóríander.

Gott að nota afganginn af kryddblöndunni í Vegan mayonnaise. Svartur hvítlaukur hentar líka vel út í vegan mayo-ið sem borið er fram með þessum rétti. 

Ath. Þeir sem eru viðkvæmir fyrir hvítlauk geta notað minna, og það er líka í fínu lagi að minnka magn af chilli fyrir þá sem ekki eru hrifnir af sterkum mat.

Kartöflur og spergilkál voru úr garðinum og tómatar og baunir úr gróðurhúsinu.
Hér er svo hversdags útgáfa af sama rétti. Gerður á sama hátt en færri tegundir af grænmeti notaðar. Lollo Bionda salatið er úr garðinum.

Þessi uppskrift er úr smiðju eiginmannsins, hann er matreiðslumeistari og heitir Garðar Hall. Hann vildi nú ekki að ég nefndi það og kallar sig aðstoðarkokk, en í þessu tilfelli gat ég alls ekki eignað mér uppskriftina 🙂

Þessi uppskrift er unnin í samstarfi við Kryddhúsið.

Sæluréttir Siggu er skrásett vōrumerki. Uppskriftirnar eru einungis ætlaðar til einkanota. Óheimilt er að nota þær í hvers kyns veitingaþjónustu án skriflegs leyfis frá eiganda vōrumerkisins. Dreifing, afritun, birting og ōnnur notkun uppskrifta og ljósmynda á síðunni er einnig óheimil án leyfis.