Vorverkin

Í augnablikinu snjóar í höfuðborginni og það er frost í spánni næstu daga. Vorið getur verið ansi brokkgengt hér á landi. Fyrir hálfum mánuði byrjaði ég að hreinsa til í gróðurhúsinu, klippa dauð lauf og greinar af rósunum og jarðarberjaplöntum, sem virðast hafa lifað af þennan óvenju harða vetur. Ég gleðst reyndar yfir að húsið hafi staðið af sér allar þessar rauðu og appelsínugulu viðvaranir.

Fyrir rúmri viku byrjaði ég svo að setja niður fræ og lauka og nú þegar hafa sykurbaunir, fáfnisgras (tarragon/estragon) og blóðberg kíkt upp úr moldinni. Spennandi tími. Ég var sérstaklega ánægð með að sjá sykurbaunirnar, því ég gleymdi fræjunum úti í húsi og vissi ekki hvort kæmi eitthvert líf í þær. Sama gildir um steinseljufræ og kóríander, en það á eftir að koma í ljós hvort þau skemmdust. Annað sem ég setti niður var t.d. sellerí, rautt sellerí, gúrkur, kokteil gúrkur og mynta.

Svona litu jarðarberjaplönturnar út eftir veturinn. En síðan ég snyrti eru þær aðeins byrjaðar að taka við sér.

Þetta er sú sem gaf mér flest ber í fyrra. Tugi í hverri viku. Spurning hvað gerist nú.
Þessar gáfu ekki mikið af sér í fyrra, en hver veit hvað gerist í sumar.

Rósirnar líta mjög vel út eftir veturinn. Svo prófaði ég að setja niður Fresíur og bóndarós. Bara smá tilraun. Við settum ofn í húsið núna frá mars og þar til hitinn verður hættur að fara niður fyrir 5 stig um nætur. Reyndar gleymdum við að loka glugga eina nóttina, svo hætt er við að hitinn hafi farið niður fyrir frostmark. Einn sólardaginn var svo hitinn kominn upp í 30 stig þegar ég komst út í hús, svo ég veit ekki hvort ég á að þora að vera bjartsýn.

Við settum niður hvítlauk í haust og hann er í banastuði. Hlakka ekki lítið til að smakka.

Þar sem hann er úti í garði er reyndar búið að snjóa yfir hann aftur núna, en hvítlaukur mum víst þola það vel þó hann sé svona langt á veg kominn.

Í garðinum fyrir framan húsið eru ávaxtatrén aðeins að byrja að bruma og krókusar og túlípanar að kíkja upp úr jörðinni.

Ég er með fiðrildi í maganum af spenningi fyrir næstu vikum, enda hef ég aldrei áður átt gróðurhús að vori til. Það var sett upp í júní í fyrra. Nú þegar er ég byrjuð að njóta þess að sitja þar úti með kaffibolla þegar sólin skín.

 

Sæluréttir Siggu er skrásett vōrumerki. Uppskriftirnar eru einungis ætlaðar til einkanota. Óheimilt er að nota þær í hvers kyns veitingaþjónustu án skriflegs leyfis frá eiganda vōrumerkisins. Dreifing, afritun, birting og ōnnur notkun uppskrifta og ljósmynda á síðunni er einnig óheimil án leyfis.