Systrasamlagið góða

Þegar ég flutti heim frá London árið 2019 voru það mikil viðbrigði að geta ekki valið úr fjölda kaffihúsa og veitingastaða sem buðu upp á veitingar sem hentuðu mínu mataræði. Ég saknaði þess og var eitthvað að væla þegar vinkona benti mér á að Systrasamlagið væri ábyggilega eitthvað fyrir mig. Allt eldað frá grunni úr bestu fáanlegum hráefnum. Það reyndist rétt og síðan hef ég farið þangað reglulega, ekki síst til að njóta jurtadrykkja sem eru ólíkir öllum öðrum. Þeir eru virkilega bragðgóðir og veita einstaka vellíðan. 

Systurnar Jóhanna og Guðrún Kristjánsdætur stofnuðu Systrasamlagið úti á Nesi 2013, en fluttu á Óðinsgötu 1 árið 2017. Á heimasíðu þeirra stendur meðal annars að Systrasamlagið sé í senn verslun og lífrænt kaffihús byggt á þeirri hugsjón að víkka út hugmyndina um heilsubúð og færa nær almenningi. Hafa andann alltaf með í efninu. Án aukaefna og sykurs.

Einnig; 

„Boðefnabar Systrasamlagsins samanstendur af ljúfri, hollri og léttri fæðu og drykkjum. Þar á meðal þeytingum, dásamlegum jurtalatté-um, cacaó-i,  lífrænu kaffi, grautum, Acai- og þriggja laga skálum, súrdeigssamlokum og opnum súrdeigsbrauðsneiðum, súpum, sterkum skotum o.fl. Að ólgeymdum ómótstæðilegum lífrænum kökum og mörgu sem bundið er árstíðum.“

Ég get ekki borðað allt á matseðlinum, sumt inniheldur t.d. glúten, en þær hafa verið einstaklega sveigjanlegar og ég hef t.d. pantað túnfisksamloku og fengið salat í staðinn fyrir brauð.

Í algjöru uppáhaldi eru heitu drykkirnir.

GULLINN TÚRMERIK LATTÉ. Túrmerik, hrákakó, kardimommur, vanilla, svartur pipar, kakósmjör, möndlurísmjólk.

ÍSLENSKUR AÐALBLÁBERJA LATTÉ. Villt vestfirskt aðalbláberjaduft, íslensk fjallagrös, lífrænn kanill og kardimommur, kókosmjólk.

HÁTÍÐAR – CACAO. Ceremonial cacao frá Gvatemala, kanill, chilí, kókosolía, jurtamjólk, rósablöð og hunang ef vill. Gefur m.a. 200 mg af magnesíumi.

Ég hef líka mjög oft fengið frábærar súpur hjá þeim og fjölmargt annað gómsætt. Ekki spillir svo hvað umhverfið og andrúmsloftið er notalegt. 

Mæli með Systrasamlaginu fyrir alla sem langar í hollan og bragðgóðan mat.

Þessi grein er ekki kostuð.

Sæluréttir Siggu er skrásett vōrumerki. Uppskriftirnar eru einungis ætlaðar til einkanota. Óheimilt er að nota þær í hvers kyns veitingaþjónustu án skriflegs leyfis frá eiganda vōrumerkisins. Dreifing, afritun, birting og ōnnur notkun uppskrifta og ljósmynda á síðunni er einnig óheimil án leyfis.