Bollur og sítrónukaka í Cooking Harmony

Fyrir rúmum mánuði byrjaði bakaríið Cooking Harmony að framleiða bollurnar mínar og sítrónuköku undir vörumerkinu Sæluréttir Siggu. Þetta hefur verið lærdómsríkt og skemmtilegt ferli og vinsældirnar komið mér ánægjulegga á óvart. Ég hélt að ég væri að búa til uppskriftir fyrir lítinn hóp sérvitringa, þó ég vonaði auðvitað að fleirum þætti eitthvað af réttunum góður. Átti þó síst von á þessu.

Í upphafi höfðu bakararnir varla undan og sumir gripu í tómt þegar þeir heimsóttu bakaríið. Viðskiptavinir voru farnir að hringja á undan sér til að vera vissir um að vörurnar væru til 🙂

Við höfum líka lent í vandræðum vegna hráefnisskorts. Fyrst varð ómögulegt að fá stevíuduft, síðan hvarf teffmjöl og cassavamjöl tímabundið af markaði. Sem betur fór var hægt að nota monkfruit duft í stað stevíunnar og svo komst ég að því að hægt var að nota sesammjöl og hrísmjöl í stað teffmjöls og cassavamjöls í bollurnar. Þær eru engu síðri. Gott að vita fyrir ykkur sem eruð að baka þær heima.

Í nýjustu fréttum er það helst að nú er ég búin að þróa jólakryddköku, sem trúlega bætist við innan tíðar.

Verði ykkur að góðu! 🙂