Vetur konungur

Í sumar byrjaði ég og endaði alla daga í gróðurhúsinu. Eðli málsins samkvæmt fölnar flest og fer í dvala yfir veturinn, svo viðbrigðin urðu töluverð. Fyrstu vikurnar fannst mér ég svíkjast um þegar ég sleppti því að tipla út í hús nokkrum sinnum á dag. En það er ekki þar með sagt að ekkert hafi verið um að vera.

Þegar þetta er skrifað, 2. nóvember eru rósirnar enn að gleðja mig.

Þegar ég sá að Rhapsody In Blue var komin með knúbba bjóst ég ekki við að þeir næðu að springa út.
En það gerðu þeir og hún stendur í blóma núna.
Yndislega falleg.
Victor Borge er með knúbb líka, en þar sem meira frost er í vændum er ég ekki bjartsýn á að hann nái að springa út.
Og talandi um fegurð, sjáið bara lauf jarðarberjaplöntunnar.
Annars er það helst að frétta að búið er að verja ávaxtatrén og fleira fyrir mestu vetrarveðrunum.
Og setja niður hvítlauk…

Pota niður nokkrum gerðum af laukum sem vonandi munu blómstra fallega í vor.

Síðustu tómatarnir fengu að roðna í eldhúsglugganum. Þeir minnstu urðu ekki rauðir en eru góðir grillaðir eða pikklaðir.
Merkilegast finnst mér að enn uppsker ég sellerí úr ræktunarkassanum. Ekki ónýtt að fá enn ferskt sellerí á þessum árstíma!

Nú bíð ég róleg í nokkra mánuði, en hlakka til þegar ég get farið að forrækta úti í húsi í mars eða apríl 🙂