Veitingahúsið Flora í Veróna

Í ferð til Veróna í maí síðastliðnum borðaði ég á veitingahúsi sem er algjör draumur fólks í minni stöðu. Það heitir Flora og allir réttirnir eru vegan, glútenlausir og án viðbætts sykurs. Ég bjóst þó ekki við þeirri veislu fyrir bragðlaukana sem beið okkar. Krásirnar voru svo gómsætar að við heimsóttum staðinn tvisvar á þeim 5 dögum sem við dvöldum á Ítalíu. Í fyrra skiptið fengum við okkur þriggja rétta kvöldverð auk eftirréttar, en í það seinna hádegisverðarhlaðborð og eftirrétt. 

Fyrsti rétturinn var CAPPUCINO FLORA. Súpa úr bæði grænum og hvítum aspas, með skallottlauk, pipar og valmúafræum. Hún var flauelsmjúk og guðdómlega góð. 

Svo komu VILLT RAUÐ HRÍSGRJÓN MEÐ ASPAS OG EPLUM. Bragðbætt með kóríander, sinnepi, múskati, sítrónu og svörtum pipar. Ágætt, en svolítið bragðlítið fannst mér. 

Þriðji rétturinn, GLJÁÐIR TOFUBITAR MEÐ SESAMFRÆUM OG KJÚKLINGABAUNUM. Í gljáanum var tamari, smá Sriacha sósa, engifer og hvítlaukur. Virkilega bragðgott og fullkomlega eldað. 

Garðar fékk þennan vegan baunaborgara og var mjög hrifinn.

MANGÓDRAUMUR. Á eftir var boðið upp á að velja eftirrétt af hlaðborði. Ég valdi þessa himnesku ostaköku með hrákökubotni og silkimjúkri og léttri mangómús. Gerðri úr kasjúhnetum og einhverju öðru. Að sjálfsögðu vildu þau ekki segja mér nákvæmlega hvað var í henni 🙂 Sætan var örlítið hunang og ég lifði það af. Þessi réttur var kannski í mestu uppáhaldi af öllu sem ég smakkaði. 

Það er óhætt að mæla með Flora, því umhverfið var líka notalegt, andrúmsloftið gott, þjónustan frábær og verðið sérlega hagstætt. Allir gestirnir fyrir utan okkur töluðu ítölsku og virtust heimavanir. Í spjalli við þjóninn komst ég að því að sama fjölskyldan hefur átt og rekið veitingastaðinn í áratugi. Eins og margir svona staðir varð hann til vegna þess að fjölskyldumeðlimur þjáðist af mataróþoli.

Flora hefur alltaf barist gegn matarsóun og í hádegisverðarhlaðborðinu borgar maður eftir vigt. Þau segja að við vitum sjálf hvað við borðum mikið, og hvetja fólk til að meta það, fá sér mátulega mikið á diskana, og koma frekar aftur ef maður er enn svangur. Diskarnir eru hólfaðir svo hægt sé að smakka sem flest.

Ég man því miður ekki nákvæmar lýsingar á því sem var á disknum mínum, en mér fannst það allt einstaklega ljúffengt og fjölbreytt á bragðið.

Ég fæ svo sjaldan eftirrétti á veitingahúsum að í seinna skiptið fékk ég mér tvo. Himneska berjaostaköku og indverskan kardimommubúðing, sem bráðnaði á tungunni. Dreymir stundum um þá í vöku sem í svefni 🙂

Á næstu mánuðum ætla ég annað slagið að mæla með veitingahúsum. Meðal þeirra sem ég hef í huga að segja frá eru Farmacy, Ottolenghi og Wild Food Café í London, Chilli Pickle og Terre a Terre í Brighton og Les Vieilles Canailles í Aix en Provence. Ekki má svo gleyma Systrasamlaginu, Sóno Matseljum og fleiri hér á landi.

Þessi grein er ekki kostuð.

Sæluréttir Siggu er skrásett vōrumerki. Uppskriftirnar eru einungis ætlaðar til einkanota. Óheimilt er að nota þær í hvers kyns veitingaþjónustu án skriflegs leyfis frá eiganda vōrumerkisins. Dreifing, afritun, birting og ōnnur notkun uppskrifta og ljósmynda á síðunni er einnig óheimil án leyfis.