Það er voða vinsælt þessa dagana að fara til Tene, en ég mæli með Teni 🙂
Ef þið eruð á ferðinni nálægt Blönduós er um að gera að koma við á Eþíópíska veitingahúsinu Teni. Maturinn er unninn frá grunni og áhersla lögð á góða nýtingu. Sum hráefnanna, eins og teff mjöl og kryddið Berbere, flytja eigendur inn beint frá Eþíópíu. Það er ekki oft sem veitingastaðir eru með marga rétti á boðstólum sem ég get borðað, en á Teni gat ég ekki bara pantað dásamlega ferskt salat heldur líka þrjá eþíópíska rétti, sem voru hver öðrum betri. Varð reyndar að sleppa pönnukökunum sem voru bornar fram með, því þær innihalda glúten. Eigandi staðarins sagði mér hins vegar að það væri ekki ólíklegt að í framtíðinni myndu þau hafa glútenlausar pönnukökur í boði líka.
Þess má geta að á matseðlinum eru líka pizzur, borgarar og fleira svo allir fá eitthvað við sitt hæfi. Í þessi þrjú skipti sem ég hef borðað á Teni prófuðu ferðafélagar t.d. nautasteik, kjúklingarétt og sterka pizzu og voru hrifnir af öllum réttunum. Kaffið var víst einstaklega gott líka.
Andrúmsloftið á staðnum er notalegt og þegar gestir mæta í fyrsta skipti er þeim kennt hvernig á að borða matinn, að nota pönnukökurnar til að skófla honum upp í sig.
Hér má sjá hluta af matseðli;
Ég mæli sem sagt innilega með að gefa þjóðvegasjoppunum frí og fá sér gómsæta eþíópíska rétti.
Þessi grein er ekki kostuð.
Sæluréttir Siggu er skrásett vōrumerki. Uppskriftirnar eru einungis ætlaðar til einkanota. Óheimilt er að nota þær í hvers kyns veitingaþjónustu án skriflegs leyfis frá eiganda vōrumerkisins. Dreifing, afritun, birting og ōnnur notkun uppskrifta og ljósmynda á síðunni er einnig óheimil án leyfis.