Sjálfbær hringrás jarðarberja og skjaldfléttna

Mér þykir mjög vænt um þessa mynd sem sonur minn tók af mér í vor. Þarna sést vel hvernig forræktunin yfirtekur eldhúsið á þessum árstíma. Veturinn var ekki eins harður og í fyrra og vorið gott framan af. Reyndar komu slæm hret í maí, en við á höfuðborgarsvæðinu þurfum ekki að kvarta þó ástandið hafi verið skelfilegt fyrir norðan. Snjóskaflar og blindbylur í byrjun júní. Plönturnar bæði í garðinum og gróðurhúsinu okkar komu vel undan vetri.

Hvað um það. Ekki ætla ég að telja upp allar tegundirnar sem ég forræktaði heldur beina sjónum aðallega að tveimur tilraunum til að ræktunin verði sjálfbær hringrás. Annars vegar tók ég afleggjara af jarðarberjaplöntum í fyrra sumar og hins vegar safnaði ég fræjum af skjaldfléttunum og þurrkaði yfir veturinn.

Þarna eru afleggjararnir áður en ég setti þá í potta í fyrra.

Komnir í pottana í síðla sumars og döfnuðu vel.

Mér var ráðlagt að stinga pottunum í moldarbeð gróðurhússins yfir vetrartímann og það gerði ég. Það virkaði svona ljómandi vel. Af 17 plöntum lifðu 16.

Þarna er ég búin taka þá upp úr beðinu og setja í stærri potta.

Mér til óvæntrar ánægju eru komin blóm á margar þeirra nú þegar. Ef allt fer að óskum verður fín jarðarberjauppskera í sumar. Villi-jarðarberjaplantan sem ég keypti í fyrra hjá Kitty er spræk eftir vetrardvalann og sama smá segja um aðrar.

Ekki litu þær vel út eftir veturinn.

En það glitti í grænt þegar ég klippti þær.

Plönturnar tóku vel við sér.

Hafa sprottið ótrúlega hratt.

Og komið fullt af blómun núna í byrjun júní. Ég er sjúklega spennt að smakka villi-jarðarberin aftur.

Og þá eru það skjaldflétturnar. Ég þorði ekki að treysta á að fræin sem ég safnaði myndu verða að plöntum svo ég keypti líka pakka.

Til vinstri eru fræin úr pakkanum og til hægri þau sem ég safnaði.

Það var svo skondið að fyrstu skjaldflétturnar, annars vegar úr pakkanum og hins vegar sem ég safnaði, kíktu upp úr moldinni sama daginn. Svo varð dálítil bið á að fleiri græðlingar kæmu af fræjunum sem ég safnaði, meðan græðlingarnir af fræjunum sem ég hafði keypt spruttu eldsnöggt upp úr moldinni. Á tímabili var mér létt yfir að hafa keypt fræ líka.

En viti menn, græðlingarnir af fræjunum sem ég safnaði sóttu í sig veðrið og um mánuði eftir að ég setti öll fræin niður voru allar skjaldflétturnar svipaðar að stærð.

Gúrkuplönturnar spruttu hratt líka, ásamt kryddjurtum og selleríi.

Eftir að ég setti skjaldflétturnar í stóra potta og út í gróðurhús spretta þær svo hratt að ég sé dagamun.

Selleríið beið úti í gróðurhúsi frá miðjum maí og fór í ræktunarkassann þegar vika var liðin af júní.

Ég forræktaði líka baunir.

Það er rosaleg spretta í þeim í húsinu.

Svo keyptum við tómatplöntur frá Tómasi eins og undanfarin ár.

Rhapsody in Blue er komin með fullt af knúbbum. Get varla beðið eftir að finna ilminn af blómunum.

Dalíurnar gleðja sem aldrei fyrr.

Allt að gerast. Þessi mynd var tekin fyrir hálfum mánuði og nú er enn líflegra í húsinu.

Hvítlaukurinn í ræktunarkössunum lofar góðu.

Kirsuberjatréð blómstraði og blómin stóðu nokkuð lengi í vor.

Og túlípanarnir voru fagrir að vanda. Þeir stóðu af sér hretið. Í fyrra sprungu þeir út daginn fyrir hretið, blómin eyðilögðust öll í vindinum og greyin lögðust á hliðina. Gladdi mig að þeir stóðu lengur í ár.

Ég er spennt fyrir sumrinu! 🌤

Sæluréttir Siggu er skrásett vōrumerki. Uppskriftirnar eru einungis ætlaðar til einkanota. Óheimilt er að nota þær í hvers kyns veitingaþjónustu án skriflegs leyfis frá eiganda vōrumerkisins. Dreifing, afritun, birting og ōnnur notkun uppskrifta og ljósmynda á síðunni er einnig óheimil án leyfis.