Hlaðborð

Uppskriftin er gerð í samstarfi við Kryddhúsið, Oatly, Ecospíra og Rapunzel.

Í veislum gleðst ég ef á hlaðborðinu leynast ólífur eða jarðarber. Það er yfirleitt það eina sem ég get borðað. Svo stundum tek ég nú bara með mér nesti.

Mig langaði til að sýna fram á að það væri alveg hægt að vera með einn eða tvo rétti fyrir fólk sem er með glútenóþol, borðar hvorki mjólkurvörur né kjöt, og forðast sykur. Ég fékk eiginmanninn í lið með mér, en hann er matreiðslumeistari og alvanur að sjá um stórar veislur. Veitingaþjónustur eru orðnar nokkuð meðvitaðar um að vera með vegan rétti, en því miður eru þeir eru oftar en ekki með glúteni og/eða sykri.

Hvað um það, hér kemur svolítill hugmyndabanki fyrir þá sem rekast á þessa tilraun mína 😄

Litlir tómatar fylltir með vegan osti. Við tókum hann úr dósinni og hrærðum basil og steinselju saman við. Eins hægt að nota aðrar ferskar kryddjurtir, krydd, sinnep eða jafnvel kapers svo eitthvað sé nefnt.

Hér er hreinum vegan smurosti smurt á frækex og ofan á er Óhefðbundið tómatsalsa með radísum og spírum Svo gott! Spírurnar eru frá Ecospíra.

Þetta er nú eins einfalt og það gerist, sveppasneiðar sem búið að velta upp úr hvítlauksolíu og krydda með smá salti og svörtum pipar. Grillaðar og settar á pinna með ólífum.

Mjög einfalt líka. Skerið kokteil gúrkur í tvennt eftir endilöngu og fræhreinsið. Fyllið með grænu pestói og stráið hnetumulningi yfir. Við hliðina er köld gúrkusúpa í litlum flöskum. Það er fullt af uppskriftum að svona súpum á netinu, en í stuttu máli þá setjið þið hálfa gúrku (gróft sneidda) svolítinn hvítlauk, myntu, sítrónusafa og klaka í blandara og maukið þar til blandan er silkimjúk. Hægt að krydda og bragðbæta með hverju sem ykkur dettur í hug. Hversu mikinn hvítlauk og myntu þið notið fer eftir smekk.

Þetta er sígilt, hrátt grænmeti með ídýfu. Í þessu tilfelli notaði ég m.a. sellerí og blómkál úr garðinum og í skálinni fyrir framan er Hummus.  Á disknum er hins vegar tzatziki sósa og hana notaði ég líka með kjúklingabaunaklöttunum.

Tzatziki ídýfa

Hráefni

1 dós sýrður rjómi, frá Oatly

1 msk matreiðslurjómi, frá Oatly

1 kokteil gúrka eða 1/4 gúrka

1 hvítlauksrif

handfylli af myntu

1 msk Tzatziki krydd, frá Kryddhúsinu

salt og svartur pipar

Aðferð

Hreinsið og saxið hvítlauksrifið smátt. Skerið gúrkuna í litla bita. Saxið myntuna.

Hrærið sýrða rjómann, þynnið aðeins með matreiðslurjómanum og kryddið.

Blandið hvítlauk, myntu og gúrku saman við og látið sósuna standa í a.m.k. 2 klukkustundir áður en hún er borin fram. Er betri daginn eftir.

Af því að ég borða sjávarafurðir eru rækjur og túnfiskur á borðinu. Ég bakaði bollurnar mínar, nema hafði þær smáar til að búa til nokkurs konar borgara. Fylltum suma með grillaðri sætri kartöfu, salatblaði og tómat, en settum túnfisksalat á hina. Ég sleppti eggjunum í túnfisksalatinu, en setti slatta af capers í staðinn.

Kartöflubátar sem velt var upp úr olíu, brauðstangakryddi frá Kryddhúsinu og síðan sesam fræjum. Bakaðir í ofni í 12-17 mínútur, lengd fer eftir ofnum.

Hér eru rækjurnar snöggsteiktar upp úr olíu með hvítlauk, chilli, fersku kóríander og kryddi að eigin vali. Smá sítrónu- eða límónusafi kreistur yfir. Hægt að borða heitt eða kalt.

Kjúklingabaunaklattar eru fyrirtak á svona hlaðborð. Hægt að nota vegan mayo sem ídýfu og bragðbæta með hverju sem er. Hér er ég hins vegar með Tzatziki ídýfuna sem ég gef uppskrift að ofar á síðunni.

Kjúklingabaunaklattar

Hráefni

1 dós kjúklingabaunir

3/4 bolli kjúklingabaunamjöl

1/2 bolli heitt vatn

1/4 bolli safi af kjúklingabaununum

3 hvítlauksrif

1/2 sítróna, safinn

1 tsk ólífuolía

2 tsk cumin, frá Kryddhúsinu

2 tsk paprika, frá Kryddhúsinu

1 tsk chilli frá Kryddhúsinu

4-6 spínatblöð

3 msk saxaður kóríander

2 msk söxuð steinselja

salt og svartur pipar

ólífuolía til steikingar

Aðferð

Hreinsið og saxið hvítlaukinn mjög smátt. Saxið kóríander, steinselju og spínat líka.

Sigtið kjúklingabaunasafann frá kjúklingabaununum.

Blandið kjúklingabaunamjöli, cumin, paprikudufti, salti og svörtum pipar saman í skál.

Bætið heitu vatni smám saman út í og hrærið jafnóðum, þar til deigið er kekkjalaust og hangir vel saman. Hrærið kjúklingabaunasafanum, olíunni og safanum úr sítrónunni saman við. Síðan hvítlauk, spínati og kryddjurtum. Látið bíða í a.m.k. 20 mínútur.

Þurrsteikið kjúklingabaunirnar aðeins með chilli duftinu.

Blandið kjúklingabaununum vel saman við deigið. Ekki hræra of mikið eða þeyta.

Steikið í frekar heitri olíu þar til klattarnir verða gullinbrúnir. Setjið á eldhúspappír eða hreinan klút til að mesta olían leki af þeim.

Borið fram heitt eða kalt með ídýfu sem ykkur finnst góð.

Og þá eru það eftirréttirnir. Í litlu staupunum er ávaxtasalat, smátt skorin melóna, græn epli, jarðarber og bláber. Þið notið það sem ykkur finnst gott.

Á litlu pinnunum eru vatnsmelónukúlur, fersk mynta og bláber. Og í forminu er Súkkulaðihraun með poppuðu kínúa og trönuberjum.

Mér dettur ótal margt fleira í hug sem hægt væri að hafa, eins og t.d. pinnar með bananasneiðum, smurðum með möndlu og heslihnetusmjöri ásamt hnetumulningi, nú eða agnarlitlar bökuskeljar með fyllingu. Hægt að nota þessa uppskrift og fylla með saltkaramellukremi. Nú og ótalið er bakað grænkál sem sjá má lengst til vinstri á efstu myndinni. Besta snakk sem hægt er að hugsa sér. Við prófuðum að nota lakkríssalt í stað venjulegt og það virkaði vel. Möguleikarnir eru endalausir!

Góða skemmtun! 😄

Uppskriftin er gerð í samstarfi við Kryddhúsið, Oatly, Ecospíra og Rapunzel.

Sæluréttir Siggu er skrásett vōrumerki. Uppskriftirnar eru einungis ætlaðar til einkanota. Óheimilt er að nota þær í hvers kyns veitingaþjónustu án skriflegs leyfis frá eiganda vōrumerkisins. Dreifing, afritun, birting og ōnnur notkun uppskrifta og ljósmynda á síðunni er einnig óheimil án leyfis.