Gómsætt grænmeti

Gómsætt grænmeti

Gleðin sem umönnun kryddjurtanna færði mér gerði mig ennþá spenntari fyrir grænmetisræktun. Við fjárfestum í svokölluðum ræktunarkössum og sáum ekki eftir því. Það var orðið of seint að rækta frá fræjum svo við keyptum forræktaðar plöntur. Auk ræktunarboxana var undirbúinn smá skiki fyrir kartöflur.

Grænmetistegundirnar sem við prófuðum voru nokkuð margar; blómkál, gulrætur, spergilkál, sellerí, skrautkál, rauðkál, hvítkál, pak choi, swiss chard og kartöflur.

Ræktunin heppnaðist frábærlega. Ég trúði varla eigin augum og bragðlaukum.

Í sérstöku uppáhaldi voru selleríið, blómkálið og kartöflurnar.

Gómsætt grænmeti

Gómsætt grænmeti

Gulræturnar voru líka einstaklega ljúffengar. Við héldum að við hefðum gert mistök því þó gulrótargrösin væru græn og ræktarleg komu bara litlar kúlur upp úr moldinni. Gat verið að jarðvegurinn væri ekki nógu góður þannig að þær næðu ekki að vaxa lengra niður í moldina? Nei, sem betur fer var það ekki raunin.

Þegar ég birti myndir af þeim á Facebook sagði Hafsteinn Hafliða. mér að þær ættu að vera svona. Þetta afbrigði væri hnöttótt og hétu Parísargulrætur. Ég hef sjaldan smakkað betri gulrætur svo ég ætla sannarlega að endurtaka leikinn.

Gómsætt grænmeti

Höfugt bragðið af selleríinu út í grænan drykk var einstaklega gott.

Kartöflurnar sem við settum niður voru rauðar og bragðið af þeim himneskt. Fátt jafnast á við nýupptekið smælki. Kartöflugarðurinn verður stækkaður.

Gómsætt grænmeti

Það var gott að borða blómkálið bæði hrátt og eldað. Ekki spillti að hafa ídýfu með úr fersku kryddjurtunum.

Gómsætt grænmeti

Þar sem reynslan af grænmetisræktun í fyrrasumar var einstaklega ánægjuleg var tekin ákvörðun um að kaupa lítið gróðurhús. Það kemur í apríl og ég hlakka suddalega til!

Sæluréttir Siggu er skrásett vōrumerki. Uppskriftirnar eru einungis ætlaðar til einkanota. Óheimilt er að nota þær í hvers kyns veitingaþjónustu án skriflegs leyfis frá eiganda vōrumerkisins. Dreifing, afritun, birting og ōnnur notkun uppskrifta og ljósmynda á síðunni er einnig óheimil án leyfis.