Örsmáu afkvæmin mín

Í fyrstu bylgju Covid helltu margir sér út í prjónaskap eða bakstur súrdeigsbrauða. Ég fann líka fyrir sterkri löngun til að finna eitthvað nýtt sem ég gæti sýslað við heima, fyrst ekki var lengur hægt að fara á mannamót eða sækja menningarviðburði. Gegnum tíðina hafði ég oft velt fyrir mér hvað það væri gaman að rækta eigin kryddjurtir og grænmeti og breytt mataræði ýtti undir löngunina. Í byrjun maí sáði ég fyrstu fræjunum í eggjabakka og vissi lítið hvað ég var að gera. Las mér til á netinu, horfði á YouTube myndbönd og gekk í hópinn Áhugafólk um kryddjurtaræktun á Facebook. Ég vissi að ég væri full sein, en vonaði að eitthvað kæmi út úr tilrauninni.

Ég hafði sáð steinselju, basiliku, dilli, kóríander, chilli og grænkáls fræjum og stökk upp úr rúminu á morgnanna til að athuga hvort eitthvað grænt væri farið að gægjast upp úr moldinni. Hafði varla undan að vökva því moldin var alltaf þurr. Hræddist að ef til vill væri ég að drekkja litlu greyjunum, en um það bil viku eftir að ég sáði byrjuðu örlitlar spírur að teygja sig upp úr moldinni. Svokölluð kímblöð. Spennan við að fylgjast með breytingu frá degi til dags var einmitt það sem ég þurfti til að lífga upp á tilveruna.

Ef til vill finnst einhverjum það skondið en mér þótti strax vænt um krílin og reyndi að hugsa sem best um þau. Vöxturinn var hraður og ég lærði orðasamband sem ég hafði aldrei heyrt fyrr, að prikla. Þegar fer að þrengja að plöntunum þarf maður að taka þær ofurvarlega í sundur og setja í sér potta. Hægt er að finna góðar leiðbeiningar víða.

Litlu kryddplönturnar mínar voru búnar að yfirtaka bæði eldhúsglugga og borð. Sprettan varð heilmikil.

Ræktun kóríanders og steinselju gekk mjög vel, reyndar svo vel að ég hafði ekki undan að gefa vinum og vandamönnum plöntur og svo fengu nokkrar þeirra heimili í ræktunarkössum í bakgarðinum. Þar döfnuðu þær vel. Sama má segja um grænkálið.

Hins vegar voru basilíkan, dillið og chilli plantan ekki í jafn miklu stuði. Þær fyrrnefndu voru hálf ræfilslegar þó hægt væri að nota þær og chilli plantan óx fallega, en skilaði einungis af sér einum agnar litlum en gómsætum ávexti.

Það var alveg sérstök tilfinning að smakka á kryddjurtunum þegar það mátti og nota þær í matreiðslu. Allt sem maður ræktar sjálfur er svo miklu bragðbetra en það sem keypt er úti í búð. Af fleiri en einni ástæðu. Ekki hægt að fá neitt ferskara en nýsprottnar jurtir og grænmeti og svo gerir stoltið það að verkum að bragðlaukarnir brosa.

Sæluréttir Siggu er skrásett vōrumerki. Uppskriftirnar eru einungis ætlaðar til einkanota. Óheimilt er að nota þær í hvers kyns veitingaþjónustu án skriflegs leyfis frá eiganda vōrumerkisins. Dreifing, afritun, birting og ōnnur notkun uppskrifta og ljósmynda á síðunni er einnig óheimil án leyfis.