Blómfegurð

Blómfegurð

Eitt af því sem ég sakna mest frá London er að fylgjast með magnólíu- og kirsuberjatránum blómgast. Fíngerð og fagursköpuð blómin þeirra glöddu mig óendanlega á vorin. Kirsuberjatrén í Hljómskálagarðinum eru lítil og sæt og gaman að sjá þau í blóma, þó auðvitað sé það ekki sambærilegt við gömul og hrífandi trén í London. Hvað þá í Japan.

Ég man þá tíð að ekki þótti líklegt að hægt væri að rækta kirsuberjatré hér á landi, en nú hefur það verið afsannað og ég hef séð mörg falleg í görðum borgarinnar. Þess vegna ákvað ég að prófa og í fyrra keypti ég kirsuberjatré í potti og eplatré líka.

Blómfegurð

Þau blómstruðu fallega í pottunum, þó lítil væru, og þegar leið á sumarið færðum við þau í framgarðinn. Það komu nokkur pínulítil epli á eplatréð. Á stærð við nögl á þumli. Veturinn hefur verið mildur svo vonandi hefur það hjálpað þeim. Ég bíð spennt eftir að sjá hvernig þau koma undan vetri.

Blómfegurð

Við keyptum líka lavender, eða lofnarblóm eins og það heitir á íslensku. Lavenderinn var í potti framan af en svo freistuðum við þess að setja hann í beð. Þar þreifst hann vel og blómstraði. Ilmurinn unaðslegur.

Mamma ræktaði undurfagrar rósir og ég hafði gaman af að fylgjast með henni sinna rósunum sem barn. Síðastliðið vor settum við niður þrjár tegundir rósa, sem heita Queen Elizabeth, Peace og Pascali. Þær stækkuðu nokkuð yfir sumarið og drottningin náði að koma með knúbba. Þegar það gerðist var hins vegar of stutt í næturfrost til að blómin opnuðust. Vonandi ná þær að blómstra í sumar þessar elskur.

Hansa rósarunnar hafa prýtt framgarðinn í nokkra áratugi. Mér finnst svo notalegt að finna ilminn af þeim taka á móti mér þegar ég kem heim að húsinu þegar þeir standa í blóma. Það er líka gaman að geta sett rósir í vasa og í skálar með vatni til að fá ilminn inn í íbúðina.

Gera má ráð fyrir að einhver blóm bætist við í sumar, bæði í garðinn og í gróðurhúsið.

Sæluréttir Siggu er skrásett vōrumerki. Uppskriftirnar eru einungis ætlaðar til einkanota. Óheimilt er að nota þær í hvers kyns veitingaþjónustu án skriflegs leyfis frá eiganda vōrumerkisins. Dreifing, afritun, birting og ōnnur notkun uppskrifta og ljósmynda á síðunni er einnig óheimil án leyfis.