Það var ótrúlega kitlandi tilfinning að sjá kökuna mína til sölu í Krónunni í gær. Cooking Harmony framleiðir hana fyrir Matarbúrið, samtök smáframleiðenda matvæla. Frá Cooking Harmony eru líka lagkaka og smákökur í þessu skemmtilega horni.
Jóla kryddkakan mín er eins og annað frá mér vegan, glútenlaus og án viðbætts sykurs og aukaefna. Sætan í henni kemur frá maukuðum grænum eplum, og svo er hún bragðbætt með trönuberjum og valhnetum. Hún er til sölu í eftirfarandi Krónu verslunum; Lindum, Flatahrauni, Selfossi, Bíldshöfða, Granda og Mosfellsbæ.
Það er gott að smyrja hana með smjöri eða vegan smjöri, því eðli málsins samkvæmt er hún aðeins þurrari og þéttari í sér en hefðbundnar kryddkökur. Góður bolli af te eða kaffi með setur svo punktinn yfir i-ið. Verði ykkur að góðu! 🙂
Fjöldi smáframleiðenda er með vörur í Matarbúrinu, svo ég gleymdi mér alveg við að skoða allan þennan girnilega mat sem mikil ást hefur verið lögð í að framleiða.
Sæluréttir Siggu er skrásett vōrumerki. Uppskriftirnar eru einungis ætlaðar til einkanota. Óheimilt er að nota þær í hvers kyns veitingaþjónustu án skriflegs leyfis frá eiganda vōrumerkisins. Dreifing, afritun, birting og ōnnur notkun uppskrifta og ljósmynda á síðunni er einnig óheimil án leyfis.