Vegan og glútenlaust lasagna

Vegan bolognese

Hráefni

4 dósir saxaðir tómatar (lífrænir, án sykurs og aukaefna)

400 g gulrætur 

325 g soyahakk (eða blanda af söxuðum kúrbít og vorlauk)

1 laukur, meðalstór

1 rauðlaukur, meðalstór

6 hvítlauks geirar

1/2 rauður chilli

2 msk ítalskt krydd frá Kryddhúsinu

1 msk oregano

salt og svartur pipar

ólífuolía til steikingar

Glútenlausar lasagna plötur (green lentil pasta)

Uppskriftin er gerð í samvinnu við Kryddhúsið.

Aðferð

Saxið gullrætur smátt. Hreinsið og saxið lauk, rauðlauk, hvítlauk og chilli. Líka kúrbít og vorlauk ef þið notið ekki soya hakk.

Hitið pönnu og setjið síðan lauk, rauðlauk, chilli og hvítlauk á hana og steikið í smástund, eða þar til það byrjar að brúnast. Kryddið og veltið aðeins saman áður en gulrótunum og soyahakki (eða kúrbít og vorlauk) er bætt út í pönnuna. Steikið aðeins áfram og setjið síðan tómatana út í. Látið malla við vægan hita í 45 mínútur. Bætið við kryddi ef þarf.

Þetta er sama uppskriftin. Í sumar notuðum við basil úr gróðurhúsinu til skreytingar.

Ostasósa

Hráefni

800 ml möndlumjólk

250g Violife mozzarella ostur

1 msk tapioka 

sletta af vatni

1 msk ítalskt krydd frá Kryddhúsinu

1 tsk oregano

1/2 tsk timian

salt og svartur pipar

ólífu olía til steikingar

Aðferð

Hellið möndlumjólkinni í pott og hitið að suðu. 

Hrærið tapiokað út í smá slettu af vatni þar til það hefur samlagast. Hrærið tapiokablönduna saman við möndlumjólkina í pottinum og sjóðið þar til sósan hefur þykknað aðeins. 

Hrærið ostinn saman við sósuna en gætið þess að láta hana ekki sjóða eftir að osturinn er kominn saman við. Hrærið þar til osturinn hefur samlagast. Kryddið. 

Lasagnað er svo sett saman á eftirfarandi hátt; í botninn á eldföstu fati er sett lag af vegan bolognese, síðan lasagna plötur, þá ostasósan og þetta er svo endurtekið þrisvar sinnum. Ostasósan er efst. Stráið rifnum Violife osti yfir og skreytið jafnvel með kirsuberjatómötum áður en fatið fer inn í ofninn. 

Bakið lasagnað í 30 mínútur við 200 gráður og hafið það síðan í 5 mínútur undir grilli. Látið lasagnað hvíla í 15 mínútur áður en það er borið fram.

Gott að bera fram með salati og grænu pestó.

Uppskriftin er gerð í samstarfi við Kryddhúsið.

Sæluréttir Siggu er skrásett vōrumerki. Uppskriftirnar eru einungis ætlaðar til einkanota. Óheimilt er að nota þær í hvers kyns veitingaþjónustu án skriflegs leyfis frá eiganda vōrumerkisins. Dreifing, afritun, birting og ōnnur notkun uppskrifta og ljósmynda á síðunni er einnig óheimil án leyfis.