Ég hef komist að því að ég nýt þess að horfa á þegar eitt og annað vex, hvort sem um er að ræða börn, plöntur eða hæfileika. Mánuði eftir að gróðurhúsið var sett upp höfum við þegar fengið pínulitla uppskeru. Fyrir utan kryddjurtirnar var það fyrsta sem gladdi okkur sykurbaunir. Ég fylltist stolti því þær ræktaði ég frá fræi.
Úr þeim varð til forréttur og búin til græn sósa, salsa verde, úr kryddjurtunum í húsinu.
Næstur kom agnarlítill cherry tómatur sem smakkaðist einkar vel. Sem betur fer eru félagar hans byrjaðir að roðna svo við eigum gott í vændum.
Sama má segja um kúrbítinn. Fyrstu tveir voru virkilega bragðgóðir og von á fleirum. Mér finnst kúrbítsblómin einkar falleg þó þau staldri stutt við. Það er ljúffengt að snæða þau djúpsteikt, en til þess að geta það verð ég að þróa glútenlausa deigblöndu. Hver veit nema það takist á endanum. Oftast er notuð maíssterkja, en ég þoli hana ekki heldur.
Við keyptum frekar litla gúrkuplöntu í Hveragerði og hún óx eins og illgresi. Það var spennandi að fylgjast með hvernig ein agúrkan stækkaði frá degi til dags. Það var eins og plantan legði allan vöxt í hana. Hinar voru pínulitlar áfram.
Svo kom að því að hún var tilbúin til neyslu og smakkaðist mjög vel. Ég var smeyk um að hún yrði kannski beisk vegna stærðarinnar en það var hún ekki. Nú er að sjá hvort hinar gúrkurnar stækka fyrst þessi tekur ekki lengur alla næringuna.
Ég forræktaði líka litlar agúrkur frá fræi og var ekki sérstaklega bjartsýn á uppskeru þar sem forræktunin hófst of seint hjá mér. En nú sýnist mér ástæða til bjartsýni.
Ég hlakkaði einna mest til jarðarberjanna, því fátt veit ég betra. Við erum með 4 plöntur og fyrsta jarðarberið var himneskt.
Kryddjurtirnar elska veruna í húsinu og spretta eins og þeim væri borgað fyrir það.
Auðvitað hef ég gert byrjendamistök, í fyrstu vökvaði ég til dæmis of mikið því mér fannst það svo gaman. En eftir að ég hætti að vera of góð við plönturnar mínar hefur allt gengið að óskum. Grænmetið í ræktunarkössunum er líka í miklu stuði. Við settum niður blómkál, spergilkál, sellerí, salat, spínat, rauðbeður og gulrótarfræ.
Þessar litlu plöntur hafa heldur betur vaxið á mánuði. Við erum byrjuð að nota spínatið og stutt í geta tekið upp salat og sellerí.
Sæluréttir Siggu er skrásett vōrumerki. Uppskriftirnar eru einungis ætlaðar til einkanota. Óheimilt er að nota þær í hvers kyns veitingaþjónustu án skriflegs leyfis frá eiganda vōrumerkisins. Dreifing, afritun, birting og ōnnur notkun uppskrifta og ljósmynda á síðunni er einnig óheimil án leyfis.