Fínu kryddjurtirnar og gómsæta grænmetið úr ræktunarkössunum í fyrra sumar æstu upp löngunina í meira og eftir talsverða umhugsun ákváðum við að fjárfesta í litlu gróðurhúsi. Ég gekk í ræktunarhópa á Facebook; Ræktaðu garðinn þinn og Ræktaðu í gróðurhúsinu þínu, enda veitti ekki af ráðum frá reyndara fólki. Spurning hvaða gólfefni átti að velja, hvers konar hillur og fyrst og fremst hvað væri sniðugt að rækta í köldu gróðurhúsi. Fólkið í þessum hópum eru algjörir fróðleiksbrunnar með svör á reiðum höndum. Stundum varð ég smá bangin við að lesa um mismunandi sýrustig moldar og allskonar óværu sem meðlimir voru að berjast við. En þó það sé pínu flókið fyrir algjöran græningja að byrja hef ég trú á að þetta komi allt með tímanum. Ég skemmti mér vel í það minnsta og það er mikilvægast.
Meðan við biðum eftir húsinu byrjaði ég forræktun á kryddjurtum, gúrkum, baunum og fleiru. Ég var orðin aðeins of sein til að forrækta allt svo við keyptum litlar plöntur í gróðrarstöðvunum líka. Þær stækkuðu hratt og fljótlega var ástandið orðið þannig að við komumst varla fyrir í eldhúsinu 🙂
Hér er myndband sem sýnir stuðið rétt áður en við fórum með plönturnar út í hús.
Húsið var sett upp í byrjun júní og það var ósegjanlega spennandi tilfinning að sjá drauminn rætast. Það er varla að ég sé búin að opna augun á morgnanna þegar ég fer út í hús til að athuga hvernig plöntunum líður. Í fyrstu var ég hrædd um að þær myndu drepast hjá mér, eða allavega ekki þrífast. Nú er ég orðin svolítið öruggari, enda gengur vel ennþá. Andrúmsloftið þegar maður kemur inn í húsið eftir nóttina er einstakt. Loftið er eitthvað svo ferskt og ilmurinn indæll. Að sitja þar inni og spjalla við plönturnar er róandi og notalegt.
Svona var þetta fyrsta daginn þeirra í húsinu, en nú hafa þessar elskur stækkað talsvert og hafa þegar gefið af sér 1 gúrku, nokkrar baunir, 1 kúrbít, 1 tómat ogg 1 jarðarber.
Sæluréttir Siggu er skrásett vōrumerki. Uppskriftirnar eru einungis ætlaðar til einkanota. Óheimilt er að nota þær í hvers kyns veitingaþjónustu án skriflegs leyfis frá eiganda vōrumerkisins. Dreifing, afritun, birting og ōnnur notkun uppskrifta og ljósmynda á síðunni er einnig óheimil án leyfis.