Apríl er harðastur mánaða

Þegar þetta er skrifað er rúm vika liðin af maí. Veturinn var langur og harður, hvert kuldametið á fætur öðru slegið. Ég man ekki eftir svona miklu fannfergi jafn lengi hér á höfuðborgarsvæðinu. Það byrjaði að snjóa fyrir alvöru 16. desember og jörð var alhvít þar til síðla mars. Þá byrjuðu umhleypingar og áfram mikið frost langt fram í apríl. Snjóaði m.a.s. aðeins aftur 27. apríl. Bæði plönturnar utandyra og í gróðurhúsinu komu verr undan þessum vetri en áður. Aðeins fjórar af fimmtán jarðarberjaplöntum lifðu hann af og rósirnar fóru illa. Önnur þeirra er með lífsmarki en hin ekki.

Ég byrjaði líka síðar að sá en í fyrra. Aðallega vegna þess að ég var aðeins of snemma á ferðinni þá, en líka vegna þess að ég hafði mikið að gera núna svo það dróst hjá mér. Fræ, hnýði og laukar fóru í pottana 26. mars í fyrra en 12. apríl núna.

Skjalfléttur voru í miklu uppáhaldi síðastliðið sumar svo ég ákvað að rækta meira af þeim núna. Klikkaði á að safna fræbelgjunum þá, en mun gera það í sumar svo ég þurfi ekki að kaupa.

Þær voru fljótar að byrja að kíkja upp úr moldinni.

Og spruttu glatt. Núna eru þær komnar út í gróðurhús.

Þessar bíða í húsinu þar til um miðjan maí, þá ætla ég að setja þær upp á garðveggina.

Ég hef ekki ræktað dalíur áður en setti niður í þrjá potta núna og þær spretta rosalega. Ein þeirra er reyndar hálfgerð rengla en hinar fínar þó þær hafi allar búið við sömu aðstæður.

Gúrkurnar þrífast vel og sama má segja um selleríið. Ég er að rækta enn meira af því en í fyrra. Flestar kryddjurtirnar eru líka í stuði. Reyndar hefur lítið komið upp af garðablóðberginu og ég hef ekki hugmynd um hvers vegna.

Bóndarósin sprettur vel. Set hana út í garð í júní.

Svona komu jarðarberin undan vetrinum, ég þarf að endurnýja að mestu í turninum. En þessi staka planta hefur þrifist vel.

Var fljót að taka við sér eftir að ég hreinsaði allt dautt frá og setti hana í stærri pott.

Og nú er hún orðin nokkuð stór. Verður spennandi að vita hvort hún gefur mikið af sér í sumar. Ég ætla að taka afleggjarana sem hún býr til og setja þá í potta, því þessi er orðin þriggja ára og því fer víst berjunum að fækka.

Hérna framan til má svo sjá nýjar jarðarberjaplöntur sem ég fékk hjá Kitty Von-Sometime. Þær hafa stækkað heilmikið og verður gaman að fylgjast með þeim í sumar. Fyrir aftan eru svo tómataplöntur frá Tómas Ponzi, enda reyndust kuldaþolnu tómatarnir hans okkur vel í fyrra. Ég ætlaði að þurrka fræ úr þeim í lok sumars og fylgdi nákvæmum og góðum leiðbeiningum Tómasar. Vildi þó ekki betur til en svo að ég gleymdi þeim of lengi í dimmum skáp, svo fræin eyðilöggðust 🙈 Mun passa mig betur næst.

Svona voru jarðarberjaplönturnar frá Kitty og tómatplönturnar sem ég fékk hjá Tómasi þegar ég sótti þær.

Þetta er vatnakarsi sem ég er að prófa að rækta í fyrsta sinn. Mér finnst hann svo góður að ég vona að ræktunin takist vel.

 

Að lokum er hér mynd af nýju nágrönnunum mínum, Cleo og Cesar, sem mæna þarna steinhissa á girðingu sem maðurinn minn bjó til utan um kartöflugarðinn og grænmetiskassana. Hægra meginn við kartöflugarðinn eru kassar með hvítlauk, sem er kominn vel á veg. Í ræktunarkassana setjum við sellerí, nokkrar gerðir af salati, spergilkál, gulrætur og blómkál. Ég er orðin mjög spennt fyrir sumrinu 🥦🍓🥒🍅🥕