Nei, ég ætla ekki að leiða ykkur í allan sannleika um stóra sykurmálið. Hins vegar er ýmislegt sem gott er að hafa í huga.
Vinkona mín sagði mér buguð að hún borðaði einungis sykurlausar hollustu kökur, en samt léttist hún ekkert. Ég bað hana að sýna mér uppskriftirnar og án þess að fara út í mikla útreikninga sá ég strax að kökurnar voru kaloríubombur, með með miklu magni af döðlum og desilíter af hlynsírópi í ofanálag. Margir halda að strásykur sé eini óvinurinn og það sé í góðu lagi að innbyrða fullt af sykri svo lengi sem hann sé náttúrulegur. Það er misskilningur og ef út í það er farið er sá hvíti náttúrulegur líka, en mikið unninn.
Bananabrauð, sem inniheldur 2-3 banana og 100 gr. af döðlum er dísætt og þó það geri heilbrigðri manneskju lítið að fá sér eina sneið ætti enginn að líta á það á sama hátt og spergilkál, sem sé allt í lagi að úða í sig.
Svo er það þetta með ávaxtasafann. Það er langur vegur frá því að það virki eins að fá sér eina appelsínu og drekka appelsínusafa þó hann innihaldi aðeins safa úr appelsínum. Þið getið lesið um það HÉR.
Þetta eru nú bara dæmi og enginn veit betur en ég að það er misjafnt og flókið hve hratt sykurinn fer út í blóðið eftir því úr hverju hann kemur og þar af leiðandi misjafnt hvernig blóðsykurinn stígur og fellur. Ég er gangandi matarmælir og þoli vel að borða lúku af bláberjum eða eitt epli, en ef ég innbyrði heilan banana eða meira en tvær döðlur finn ég þyt fyrir eyrum og fæ bólgur í fingurna. Tala nú ekki um ef ég leyfi mér að borða sneið af þeim kökum, sem oft eru kenndar við hollustu. Þá fylgir höfuðverkur. Þess vegna eru uppskriftirnar mínar miðaðar við afskaplega takmarkaða notkun sætuefnum fyrir utan stevíu og monk fruit, sem innihalda engar kaloríur og hækka ekki blóðsykurinn.
Ég nota stundum döðlur, banana og eplamauk, en þá mjög lítið magn. Í 12 manna hráköku (Möndlu og kókos hrákaka)eru t.d. aðeins 6 döðlur og ekkert annað sætuefni.
Vegna þess hve flókið stóra sykurmálið er bað ég innkirtlasérfræðing að vísa mér á greinar sem skýrðu þessi mál að einhverju leyti og fékk slóðir á grein frá Harvard annars vegar og hins vegar grein á fyrirspurna vefnum Quora.
Natural and Added Sugars: Two Sides of the Same Coin
Sæluréttir Siggu er skrásett vōrumerki. Uppskriftirnar eru einungis ætlaðar til einkanota. Óheimilt er að nota þær í hvers kyns veitingaþjónustu án skriflegs leyfis frá eiganda vōrumerkisins. Dreifing, afritun, birting og ōnnur notkun uppskrifta og ljósmynda á síðunni er einnig óheimil án leyfis.