Vorboðinn ljúfi, aspas

Á Lundúnarárunum lærði ég að borða eftir árstíðum. Naut þess að hlakka til að bragða nýupptekinn aspas á vorin, síðan tók kirsuberjatíminn við og nokkru síðar hin gómsætustu jarðarber. Á haustin voru það svo grasker. Þó hægt sé að kaupa aspas stærstan hluta árs finnst mér hann samt bestur á vorin og fram á sumar. Það er líka betra fyrir jörðina að borða eftir árstíðum. Þegar grænmeti og ávextir eru ræktuð þannig þarf ekki jafn mikla auka lýsingu, hita, áburð og skordýravarnir. Á dögunum rakst ég á skemmtilega og fróðlega grein í Bændablaðinu um aspas, eða spergil eins og hann er líka stundum kallaður. Ástartoppur finnst mér samt besta heitið! 🙂 Af hverju ætli það hafi ekki fest í málinu?

Hér eru nokkrar hugmyndir um hvernig hægt er að nota aspas sem forrétt eða sem hluta af dögurði.

 

Aspas með steinseljusósu

Hráefni

1 búnt aspas

ólífuolía til steikingar

klípa af vegan smjöri, kubbur frá Naturli

Steinseljusósa

Hráefni

200 g ólífuolía

1 sítróna, safinn (ef sítrónan er stór nægir safi úr hálfri)

1 tsk sítrónubörkur

1 væn lúka fersk steinselja

1/2 rautt chilli

1 tsk capers

salt og svartur pipar

Aðferð

Ef neðsti hluti aspasins er byrjaður að tréna brjótið hann þá af. Flysjið svo aðeins stilkana á aspasnum. Ef hann er stór er gott að sjóða hann í saltvatni í u.þ.b. 2 mínútur, kælið hann síðan í ísköldu vatni og leggið á eldhúspappír. Þarf ekki að sjóða ef aspasinn er smágerður. 

Rífið börkinn af sítrónunni og kreistið djúsinn úr henni.. Fræhreinsið og saxið chilli. Setjið allt sem á að fara í sósuna í blandara og blandið þar til það hefur samlagast aðeins.

Hitið pönnu og setjið ólífuolíuna á hana. Steikið aspasinn í örstutta stund. Bætið klípunni af vegan smjörinu út í undir lokin.

Raðið aspasnum á disk og hellið sósunni yfir. 

Aspas og steiktir sveppir fara líka mjög vel saman.
Svo maður tali ekki um aspas og spergilkál. Namm!
Hér lagði ég grillaðan aspas ofan á vegan mayo (sjá grunnuppskrift að vegan mayo á síðunni) sem ég setti út í svartan hvítlauk. Stráði svo sesamfræjum yfir. Mjög gott.
Hollt og gott að hafa svolítið salat til hliðar…
… og jafnvel hleypt egg

Sæluréttir Siggu er skrásett vōrumerki. Uppskriftirnar eru einungis ætlaðar til einkanota. Óheimilt er að nota þær í hvers kyns veitingaþjónustu án skriflegs leyfis frá eiganda vōrumerkisins. Dreifing, afritun, birting og ōnnur notkun uppskrifta og ljósmynda á síðunni er einnig óheimil án leyfis.