Trifle á hátíðarborðið

Hefðbundið trifle er vinsæll eftirréttur víða í nágrannalöndum okkar. Uppistaðan er yfirleitt svampbotnar, rjómi, ávextir, vanillukrem og hlaup eða sulta. Svo hefur verið vinsælt að nota sérrí til að væta í botnunum. 

Þetta trifle er nokkuð ólíkt því hefðbundna en ljúffengt engu að síður. Ég nota egg í svampbotninn, en þeir sem vilja hafa réttinn vegan geta notað eingöngu granóla. Það er gott líka. Ég nota yfirleitt ekki Xanthan gum, en geri undantekningu tvisvar á ári, í þennan svampbotn og vatnsdeigsbollur á bolludaginn.

Það er hægt að leika sér mikið með þessa uppskrift, má t.d. nota sítrónukrem í stað vanillukrems og aðra ávexti og ber. Endalausir möguleikar.

Þessi uppskrift er unnin í samstarfi við Good Good og Rapunzel.

Svampbotn

Hráefni

1 bolli hrísmjöl

1/2 bolli soyamjöl

1/4 bolli tapioka

1 tsk vínsteinslyftiduft

1 tsk xanthan gum

1/2 tsk hreint vanilluduft, frá Rapunzel 

1 bolli möndlumjólk

4 egg

1 msk stevíuduft, frá Good Good

1/2 tsk cream of tartar

Aðferð

Forhitið ofninn í 170-180°C (misjafnt eftir ofnum)

Sigtið hrísmjöl, soyamjöl, tapioka, vínsteinslyftiduft og xanthan gum saman í skál. 

Aðskiljið eggin í rauður og hvítur.

Þeytið saman eggjarauður og stevíuduft með handþeytara þar til blandan er létt og ljós. Blandið möndlumjólkinni saman við og þeytið aðeins áfram.

Þeytið eggjahvíturnar með cream of tartar þar til þær eru orðnar hvítar.

Blandið eggjahvítunum varlega saman við deigið í skálinni. 

Skiptið í tvö frekar lítil smelluform og bakið í u.þ.b. 20 mínútur.

Takið úr formunum og látið hvíla á rist og kólna alveg áður en þið skerið annan botninn í litlar kökur. Hinn botninn getið þið notað síðar. Geymist í kæli í nokkra daga og lengi í frysti. 

Annað sem notað er í þetta Trifle er eftirfarandi;

2 stór mangó

4 mandarínur

200 g hindber 

granateplakjarnar (má sleppa)

2 fernur hafrarjómi til þeytingar, frá Oatly

vanillukrem, uppskrift finnur þú HÉR Ef þú ert að gera trifle is stóra skál veitir ekkert af tvöföldu magni af vanillukremi. Því miður virkar ekki að tvöfalda uppskriftina, ég hef prófað það og þá þykknar kremið ekki. Svo í staðinn er hægt að gera tvær uppskriftir samtímis í tveimur litlum skaftpottum.

granóla, uppskrift finnur þú HÉR

Gott er að baka svampbotnana, gera vanillukremið og granóla daginn áður eða fyrr. Til að gera þetta trifle er náttúrulega ekki nauðsynlegt að baka svampbotnana, þeir sem það þola geta keypt þá tilbúna eða notað svokallaða lady fingers. Hvað heita þeir annars á íslensku? Fingur lafðinnar? 🙂 Það mál líka nota kókosrjóma í stað hafrarjóma fyrir þá sem þykir það betra.

Þegar komið er að því að setja eftirréttinn saman er gott að undirbúa allt vel. 

Skera mangó í bita, kreista safann úr 2 mandarínum og setja á disk, en skipta hinum tveimur mandarínunum í báta.

Skerið svampbotninn niður í litlar kökur. Þið getið notað stungujárn ef þið eigið, en ég fann ekki mín og notaði bara lítið glas og beittan hníf. 

Leggið kökurnar aðeins ofan á mandarínusafann og látið þær drekka hann í sig.

Þeyta hafrarjómann, fyrst aðra fernuna, og svo hina með 15 hindberjum svo úr verið hindberjarjómi. Þið setjið hindberin út í þegar hafrarjóminn er næstum þeyttur.

Þá er komið að því að setja herlegheitin saman í stóra skál. Hér koma myndir af því hvernig ég gerði það en þið getið líka gert það á hvern þann hátt sem ykkur dettur í hug.

Svampbotn og mangó neðst.
Sáldraði granóla yfir.
Síðan er það hindberjarjóminn.
Og þá meiri svampbotn og slatti af hindberjum.
Því næst meira granóla, vanillukrem og mangó. Ég setti smá turmerik út í vanillukremið í þetta sinn til að fá dökkgulari lit, en mæli ekki með því. Næst sleppi ég því.
Í lokin er sett vænt lag af þeyttum hafrarjóma sem ég skreytti svo með mandarínum og granateplakjörnum.

Það er líka hægt að búa til trifle í mörg lítil glös eða eftirréttaskálar, í stað þess að hafa það í stórri skál.

Þessi uppskrift er unnin í samstarfi við Good Good og Rapunzel.

Sæluréttir Siggu er skrásett vōrumerki. Uppskriftirnar eru einungis ætlaðar til einkanota. Óheimilt er að nota þær í hvers kyns veitingaþjónustu án skriflegs leyfis frá eiganda vōrumerkisins. Dreifing, afritun, birting og ōnnur notkun uppskrifta og ljósmynda á síðunni er einnig óheimil án leyfis.