Þorskhnakki með grænni sósu og grænkálssnakki

Hráefni

400 g þorskhnakkar

salt og svartur pipar

1/2 límóna

rauðlaukur, límóna, dill og krydd í botn pönnunar til að gufusjóða, ef þið eigið ekki gufusuðutæki eða þar til gerða grind til að setja í pönnuna.

Aðferð

Skerið þorskhnakkana í bita, kryddið, kreistið smá límónusafa yfir og gufusjóðið. 

Ef þig eigið til þess gerða græju er það frábært en svo eru líka til grindur sem passa í pönnur og þá má setja svolítið vatn í pönnuna, fiskinn á grindina og gufusjóða fiskinn við mjög vægan hita í nokkrar mínútur. Þegar hann er orðinn hvítur er hann tilbúinn. 

Ég á hvorki gufusuðutæki né grind svo ég skar bara niður rauðlauk, límónu og krydd. Setti það í pönnuna ásamt smávegis vatni. Þegar suðan var komin upp lagði ég fiskinn varlega ofan á, setti lokið á pönnuna og gufusauð fiskinn í nokkrar mínútur.

Græn sósa

Hráefni

100 g ólífuolía

1/2 límóna (safinn)

1-2 geirar hvítlaukur

lítill biti engifer 

1 msk jalapeño

væn lúka steinselja

væn lúka basilika

1 og 1/2 lúka dill

salt og svartur pipar

Aðferð

Hreinsið hvítlauk og engifer og kreistið safann úr límónunni. Allt sett í blandara og maukað þar til sósan verður silkimjúk.

Grænkálssnakk

Hráefni

1 poki af grænkáli

ólífuolía

salt og svartur pipar

Aðferð

Forhitið ofninn í 150-160 gráður.

Hreinsið grænkálið af stilkunum með því að renna fingrunum eftir honum. Í fínu lagi þó fíngerði hluti stilksins verði eftir.

Setjið það í stóra skál, nuddið með olíu og kryddið. Færið grænkálið yfir í ofnskúffu og bakið það í ca. 12 mínútur. 

Færið það yfir á grind þegar þið takið það út úr ofninum.

Græna sósan er sett á disk, þorskhnakkinn ofan á og grænkálssnakkið mulið yfir. Með þessu er hægt að hafa salat, hrísgrjón, kínúa, kartöflur eða eldað grænmeti. Nú eða bara hvað sem ykkur dettur í hug.

Sæluréttir Siggu er skrásett vōrumerki. Uppskriftirnar eru einungis ætlaðar til einkanota. Óheimilt er að nota þær í hvers kyns veitingaþjónustu án skriflegs leyfis frá eiganda vōrumerkisins. Dreifing, afritun, birting og ōnnur notkun uppskrifta og ljósmynda á síðunni er einnig óheimil án leyfis.