Súkkulaðibúðingur sem bráðnar á tungunni

Hráefni

40 g 85 – 100% súkkulaði, án sykurs

8 dropar karamellu stevía, frá Good Good 

1 pk (300 g) silken tofu

1/2 bolli hafrarjómi til þeytingar, frá Oatly

1 tsk hreint vanilluduft

pínu salt

Uppskriftin er unnin í samvinnu við Oatly og Good Good.

Aðferð

Takið silken tofu úr ísskápnum, setið það í sigti og leyfið vökvanum að leka af. 

Gætið þess að tofu-ið sé við stofuhita þegar þið byrjið að vinna með það. Athugið að silken tofu er mýkra en þetta sem flestir kannast við og því tilvalið í eftirrétti. Silken tofu frá Clearspring fæst í Nettó og jafnvel víðar.

Hitið hafrarjómann í litlum skaftpotti við mjög vægan hita. Setjið súkkulaðið saman við í litlum bitum og leyfið því að bráðna út í hafrarjómann. Þið þurfið að hreyfa það stöðugt með pískara og þeyta svo þegar líður á svo það samlagist rjómanum fullkomlega. 

Hrærið saltið og stevíuna saman við. Kælið. Hrærið í annað slagið með pískaranum svo blandan stífni ekki. 

Setjið silken tofu í matvinnsluvél eða blandara ásamt vanilluduftinu og látið tækið ganga þar til tofu-ið er mjúkt. Bætið þá hafrarjóma- og súkkulaðiblöndunni út í og látið ganga þar til blandan er silkimjúk. Stoppið einu sinni eða tvisvar til að skafa hliðarnar með sleikju.

Skiptið í eftirréttaskálar eða glös og kælið í ísskáp í a.m.k. 4 klst. Skreytið með lakkríssalti, þeyttum hafrarjóma og ferskum berjum, nú eða ætum blómum, granateplakjörnum eða granóla svo einhver dæmi séu nefnd.

ATH. Þannig er mál með vexti að hafrar eru í sjálfu sér glútenlausir en stundum ræktaðir með hveiti og þá getur orðið krosssmit. Á síðunni sinni segja Oatly að vōrurnar þeirra í Bandaríkjunum séu úr glútenlausum hōfrum en þeir geti ekki ábyrgst að ekki leynist ōrlítið glúten í vōrum í Evrópu og Asíu. Eða minna en 100ppm mg/kg. Þeir geta þess vegna ekki merkt hana sem glútenlausa. Ég myndi kannski ekki mæla með að þeir sem eru með selíak tækju sénsinn, en ég er með heiftarlegt glútenóþol en þoli þennan rjóma vel.

Það er hægt að nota 1 tsk af yacun sírópi í stað stevíunnar, en það má alls ekki fara út í heita súkkulaðiblönduna. Best að setja yacun sírópið með tofu-inu og vanilluduftinu í matvinnsluvélina. Magnið af súkkulaði er líka smekksatriði, ef þið viljið dekkri búðing er einfaldlega hægt að auka magnið af súkkulaði. Búðingurinn er ekki síðri eftir nótt í ískápnum 🙂

Þessi uppskrift er unnin í samvinnu við Oatly og Good Good.

Sæluréttir Siggu er skrásett vōrumerki. Uppskriftirnar eru einungis ætlaðar til einkanota. Óheimilt er að nota þær í hvers kyns veitingaþjónustu án skriflegs leyfis frá eiganda vōrumerkisins. Dreifing, afritun, birting og ōnnur notkun uppskrifta og ljósmynda á síðunni er einnig óheimil án leyfis.