Yfir jólahátíðina er oft svo mikið til að borða að ein smákökutegund verður útundan. Eða nokkrar smákökur daga uppi í boxi mánuðum saman. Mér er meinilla við matarsóun, svo hér koma hugmyndir að hvernig hægt er að nýta smákökuafganga. Reyndar var ástæðan hugmyndinni mislukkaðar smákökur sem ég bakaði og gat ekki hugsað mér að henda. Þær voru ansi þurrar svona einar og sér, en til að bragðbæta nammi eða eftirrétt reyndust þær ljómandi fínar.
Ég þakka frábæra samfylgd á árinu sem er að líða og óska ykkur gæfu á því næsta ✨
Ber eða ávextir með muldum smákökum
Setjið ykkar uppáhalds ber eða niðurskorna ávexti í glas eða eftirréttaskál. Saxið niður smákökur og blandið mulningnum saman við. Mér fannst gott að hafa frekar grófa bita inn á milli, en það er smekksatriði.
Skreytið með þeyttum hafrarjóma eða kókosrjóma. Ég set stundum lög af mismunandi berjum og hef rjóma og smákökumulning á milli. Það má náttúrulega skafa smá dökkt súkkulaði yfir, eða nota kakónibbur. Í eftirréttinn á myndunum notaði ég jarðarber, bláber, brómber og hindber. Um að gera að nota afganga úr ísskápnum.
Súkkulaðibitar með smákökumulningi
Hráefni
2 bollar gróft saxaðar smákökur
1 bolli poppað kínúa
100 g 85% -100% súkkulaði
20-40 g kakósmjör, magn fer eftir hversu dökkt súkkulaðið er. Ef þið notið 100% veitir ekkert af 40 g.
2 msk heslihnetu- og möndlusmjör
1/2 tsk hreint vanilluduft
6 dropar karamellu stevía, frá Good Good
Aðferð
Saxið smákökurnar miðlungs gróft.
Bræðið súkkulaði, kakósmjör og heslihnetu- og möndlusmör saman við lágan hita. Það þarf aðeins að hjálpa möndlusmjörinu, kremja með skeið til að það bráðni og samlagist hinu vel. Bætið vanillu og stevíu saman við.
Blandið síðan smákökumulningnum og poppaða kínúanu saman við.
Setjið á plötu með bökunarpappír og frystið. Nammið geymist lengi í frysti.
Það er líka ljúffengt að setja muldar smákökur saman við ís eða mylja þær út á hann. HÉRNA finnið þið uppskrift að ís sem er vegan og án sykurs.
Verði ykkur að góðu og Gleðilegt ár! 💥☀️
Sæluréttir Siggu er skrásett vōrumerki. Uppskriftirnar eru einungis ætlaðar til einkanota. Óheimilt er að nota þær í hvers kyns veitingaþjónustu án skriflegs leyfis frá eiganda vōrumerkisins. Dreifing, afritun, birting og ōnnur notkun uppskrifta og ljósmynda á síðunni er einnig óheimil án leyfis.