Skíta sumar

Sumarið 2024 var blautt, kalt og vindasamt á suðvesturhorninu. Metfjöldi gulra viðvaranna og hvaðeina. Eiginlega stórmerkilegt að fá einhverja uppskeru yfir höfuð. Hún var þó töluvert verri en fyrri sumur.

Sumt gladdi sem betur fer og ég byrja á að sýna ykkur myndir af því. Dalíurnar létu engan bug á sér finna og blómstruðu allt sumarið eins og þeim væri borgað fyrir það. Sama má segja um skjaldflétturnar. Ég forræktaði alltof mikið af þeim og þó að ég hafi gefið vinum og vandamönnum nokkrar tóku þær sem eftir voru mikið pláss í gróðurhúsinu og garðinum.

Býflugurnar elskuðu þær og glöddu mig og gróðurinn.

Svo voru það jarðarberin. Uppskeran af þessum sígildu var ekkert sérstök, en villijarðarberin voru sannarlega í essinu sínu. Eru m.a.s. enn að gefa, núna um miðjan október. Fátt ljúffengara.

Þessar gómsætu bragðsprengjur eru í miklu uppáhaldi!

Baunirnar voru líka í brjáluðu stuði, við fengum mikla uppskeru allt sumarið.

Sama má segja um salat og grænkál. Mesta furða hvað það spjaraði sig í gróðrarkössunum, þrátt fyrir endalausa vætu og sólarleysi.

Kryddjurtirnar plummuðu sig vel, þarna má sjá steinselju úti í kassa.

Garðablóðbergið orðið risastórt. Það var úti í sumar en nú erum við búin að taka það inn í hús. Erum enn að nota það og sjálfsagt verður svo eitthvað fram eftir. Þegar fer að frysta fyrir alvöru er svo bara að frysta og þurrka afganginn.

Þetta er hins vegar fyrsta sumarið sem selleríið er lélegt. Stilkarnir mjóslegnir svo ekki sé meira sagt.

Við fengum aðeins örfáa tómata og gúrkuuppskeran var nánast engin.

Kartöfluuppskeran var mun minni en í fyrra, þó hún væri sæmileg. Hvítlauk fengum við líka og hann var ljómandi góður.

Svana (Rhapsody in Blue) blómstraði fallega fyrri part sumars, en í lok ágúst fékk hún einhverja óværu á sig. Ég klippti hana niður, en septembersólskinið hefur ruglað þessa elsku í ríminu svo hún lætur eins og það sé komið vor

Þessar voru hins vegar teknar um mitt sumar, á einum af fáum sólskinsdögum.

Þó uppskeran hafi verið lélegri en undanfarin sumur er alltaf jafn dásamleg tilfinning að borða það sem maður hefur ræktað sjálfur. Á þessum diski er allt úr garði og gróðurhúsi nema fiskurinn og vegan smjörið, Kartöflur, salat, tómatur, baunir, hvítlaukur og kryddjurtir.

Nú er orðið tómlegt í húsinu, pottar með nýjum jarðarberjaafleggjurum komnir í beðið sem baunirnar voru í áður. Svo finnst mér reyndar alltaf einstaklega fallegt þegar jarðarberjaplönturnar skipta yfir í haustlitina sína.

Þá er bara að byrja að hlakka til vorsins 🌸

Sæluréttir Siggu er skrásett vōrumerki. Uppskriftirnar eru einungis ætlaðar til einkanota. Óheimilt er að nota þær í hvers kyns veitingaþjónustu án skriflegs leyfis frá eiganda vōrumerkisins. Dreifing, afritun, birting og ōnnur notkun uppskrifta og ljósmynda á síðunni er einnig óheimil án leyfis.