Sítrónukrem 

Þegar ég birti uppskrift að smákökum um daginn lofaði ég að láta ykkur fá uppskrift að sítrónukremi sem hægt væri að setja í holuna á kökunum í stað sultu. Hugmyndina átti tengdadóttir mín og þetta eru núna uppáhalds smákökurnar mínar. Ég setti líka smávegis hnetumulning ofan á og það gerði þær enn betri. Þið finnið uppskriftina að sítrónusmákökunum HÉR.

Sítrónukrem

Hráefni

4 msk bráðið jurtasmjör, Naturli kubbur

1/8 bolli kjúklingabaunamjöl

1 bolli safi úr sítrónu

1 tsk rifinn sítrónubörkur 

2 msk stevíu duft, eða 10 dropar stevía, frá Good Good

1/2 tsk hreint vanilluduft, frá Rapunzel

örlítið sjávarsalt

Uppskriftin er unnin í samvinnu við Good Good og Rapunzel.

Aðferð

Hreinsið sítrónurnar, rífið börk, og kreistið safann úr þeim. Nægir venjulega að nota tvær sítrónur.

Bræðið smjörið í litlum skaftpotti við vægan hita. 

Þegar það er bráðnað er kjúklingabaunamjölinu hrært saman við líkt og þegar þegar gerð er hveitibolla.

Blandið öllu hinu saman við og látið suðuna koma upp. Hrærið í á meðan. Sjóðið áfram í u.þ.b. 3 mínútur, eða þar til þið sjáið að það hefur þykknað þannig að auðvelt er að mynda form með sleifinni. Tekur stundum lengri tíma. 

Látið kólna aðeins áður en það er sett í krukku. Sítrónukremið geymist vel í ískáp í nokkrar vikur, en þykknar aðeins við það. Þið getið líka ráðið þykktinni með því að nota minna eða meira kjúklingabaunamjöl.

Ég er mjög hrifin af sterku, súru sítrónubragði en þeir sem vilja ekki hafa sítrónubragðið eins sterkt geta haft minna af sítrónusafanum og fyllt upp í bollann með vatni. 

Sítrónukremið er gott sem fylling í bökur og svo er líka ljúffengt að smyrja ristað brauð með því eða setja á pönnukökur. En ef þið ætlið að gera smákökurnar, þá er kremið sett í holurnar á kökunum þegar þið hafið mótað deigið á plötu og smá hnetumulningi stráð yfir. Þið notið bara uppáhalds hneturnar ykkar. Síðan eru kökurnar bakaðar í 16-20 mínútur við 180 gráður og kældar á rist.

Öfugt við hinar smákökurnar eru þessar bestar nýbakaðar, þær linast pínu eftir það. Ekki geyma þær í lokuðu plastboxi því þá linast þær. Smákökurnar geymast vel í frysti en linast þó aðeins við það. Mér finnst reyndar best að borða þær áður en frostið er farið úr þeim 🙂

Uppskriftin er unnin í samstarfi við Good Good og Rapunzel.

Sæluréttir Siggu er skrásett vōrumerki. Uppskriftirnar eru einungis ætlaðar til einkanota. Óheimilt er að nota þær í hvers kyns veitingaþjónustu án skriflegs leyfis frá eiganda vōrumerkisins. Dreifing, afritun, birting og ōnnur notkun uppskrifta og ljósmynda á síðunni er einnig óheimil án leyfis.