Risotto með aspas og vatnakarsa

Aspas er það grænmeti sem ég tengi mest við vorið. Það hefur verið svo kalt þannig að byrjun sumars er meira eins og vor. Hér á suðvestur horninu að minnsta kosti. Ég prófaði að rækta vatnakarsa í fyrsta sinn og það heppnaðist svo vel að ég bara varð að nota hann í uppskrift. Hann sprettur eins og arfi í gróðurhúsinu og líka í eldhúsglugganum.

Ingredients

250 g risotto hrísgrjón (arborio)

16-20 stk grænn apas

1/2 laukur

2 hvítlauksgeirar

600 ml aspassoð

1 dl hvítvín, ef vill

1 msk vegan parmesan ostur, rifinn

1 tsk sítrónubörkur, rifinn

1 tsk sítrónusafi

1 msk ólífuolía

3 msk vegan smjör, kubbur frá Naturli

1 dl hafrarjómi, frá Oatly

salt og svartur pipar

vatnakarsi, má einnig nota steinselju eða basilíku

Uppskriftin er gerð í samstarfi við Oatly.

Aðferð

Skerið aspasinn þannig að neðsti hlutinn, og það sem þið flysjið af fer í soð. Miðhlutinn er hins vegar skorinn niður eins og sést á myndinni.

Þá eru eftir topparnir fögru og þeir eru lagðir til hliðar.

Hreinsið og fínsaxið lauk og hvítlauk. Rífið vegan parmesan ost og sítrónubörk.

Þá er að búa til soð. Sjóðið afskurðinn af aspasinum, þ.e. neðsta hlutann og flusið í í einum lítra af vatni í 30 mín. Hafið smávegis með af saxaða lauknum og saltið aðeins. Sigtið svo og þá eigið þið að vera með 600 ml af ljómandi soði. Ef ykkur finnst of tímafrekt eða of mikið vesen að búa til soð má líka nota hreint grænmetissoð úr fernu, eða búa til grænmetissoð úr glúten- aukaefna- og sykurlausum grænmetisteningi og vatni.

Setjið ólífuolíu á pönnu ásamt lauk og hvítlauk. Látið það byrja að mýkjast þar til laukurinn er orðinn glær og bætið þá aspassneiðum og grjónunum út í. Haldið aðeins áfram að velta þessu um á pönnunni.

Ef þið notið hvítvín er það sett út í á þessu stigi og látið sjóða niður.

Hellið svo u.þ.b. 1/3 af aspassoðinu saman við og hrærið stöðugt í meðan það sýður niður. Um leið og þið sjáið að vökvinn er nánast horfinn bætið þá 1/3 af soðinu út í og endurtakið leikinn. Að lokum fer síðasti hluti soðsins út í og þá þurfið þið að fylgjast vel með grjónunum, þau eiga hvorki að vera of hörð undir tönn né mauksoðin. Þetta tekur oftast um 20 mínútur en það er þó misjafnt svo mikilvægt er að fylgjast vel með og hræra varlega allan tímann.

Að lokum er blandan krydduð og vegan smjör, sítrónusafi, sítrónubörkur og rifinn parmesanostur hrært varlega saman við.

Undirbúið apsas toppana með því að dýfa þeim í sjóðandi vatn í örstutta stund og kæla strax aftur. Þetta er ekki nauðsynlegt, en betra áður en þeim er velt upp úr vegan smjöri eða ólífuolíu á pönnu.

Skreytið með vel af vatnakarsa, sneiðum af vegan parmesan og sítrónuberki. Leggið aspastoppana ofan á.

Þetta er fínasti kvöldverður fyrir tvo eða forréttur fyrir sex.

Njótið vel!

Þessi uppskrift er gerð í samstarfi við Oatly.

Sæluréttir Siggu er skrásett vōrumerki. Uppskriftirnar eru einungis ætlaðar til einkanota. Óheimilt er að nota þær í hvers kyns veitingaþjónustu án skriflegs leyfis frá eiganda vōrumerkisins. Dreifing, afritun, birting og ōnnur notkun uppskrifta og ljósmynda á síðunni er einnig óheimil án leyfis.