Pönnukökur úr rauðum linsubaunum

Fyrir nokkru sá ég á alnetinu að hægt væri að gera pönnukökur úr 3 hráefnum; linsubaunum vatni og salti. Þetta var lyginni líkast svo ég hafði nú ekki mikla trú á það virkaði. Ekki fannst mér þessar pönnukökur góðar í fyrsta skipti sem ég prófaði, eitthvað aukabragð sem mér líkaði ekki. En viti menn, með því bragðbæta þennan grunn með sterku kryddi eða vanillu urðu úr deiginu hinar ágætustu pönnukökur. Þær eru betri ef þær fá að jafna sig í nokkra klukkutíma og jafnvel daginn eftir.

Hráefni

1 bolli rauðar linsubaunir, frá Rapunzel

1 og 1/2 bolli vatn

svolítið salt

má bragðbæta að vild með bragðmiklu kryddi eins og t.d. hvítlauksdufti, chilli og túrmerik og/eða kryddjurtum eins og kórander, dilli eða basilíku, svo dæmi séu nefnd. 

ef þið ætlið að gera sætar er best að blanda út í deigið 4-5 dropum af stevíu frá Good Good og 1 msk af vanillupróteini eða 1 tsk af hreinu vanilludufti frá Rapunzel. Líka hægt að nota kanil.

Uppskriftin er unnin í samstarfi við Rapunzel og Good Good.

Aðferð

Leggið rauðu linsubaunirnar í bleyti yfir nótt, eða a.m.k. 4 klst. 

Sigtið vatnið frá og hreinsið linsubaunirnar undir rennandi vatni.

Setjið linsubaunirnar ásamt 1 og hálfum bolla af vatni og þeim bragðefnum sem þið hafið valið í matvinnsluvél eða blandara og maukið þar til deigið er kekkjalaust. Látið deigið jafna sig í nokkrar mínútur áður en þið byrjið að baka þær.

Bakið á pönnu og gætið þess að hún sé ekki of heit. Þá fer illa og deigið krumpast í allar áttir. Það þarf að láta þessar pönnukökur bakast hægt.

Tekur smá tíma að komast upp á lagið með að baka þær, en ekki gefast upp, það kemur með smá æfingu. Mjög nauðsynlegt að nota góða pönnu svo pönnukökurnar festist ekki við hana. Þær hanga ekki eins vel saman og pönnukökur úr hveiti þar sem glútenið vantar. Auðvelt samt að gera þær litlu.

Það má leika sér með þennan grunn að vild. Nota minna vatn ef á að búa til aðeins þykkari pönnukökur til að nota með indverskum mat t.d. Þá er líka gott að smyrja aðra hliðina með hvítlauksolíu meðan hin er steikt.

Fyllingarnar fara svo bara eftir ykkar smekk. Á myndunum sem fylgja er í ósætu pönnukökunni chilli vegan mayo, spírur og afgangur af bökuðu grænmeti. ´

Í þessari er hins vegar hafrarjómi, bláber, heslihnetur, granóla og saltkaramellukrem.
Það er ljúffengt að blanda einni matskeið af heslihnetu- og möndlusmjöri saman við kókos- eða hafrarjóma.
Hér er svo búið að setja bláber og heslihnetur út á, en um að gera að láta hugmyndaflugið ráða.

Uppskriftin er unnin í samstarfi við Rapunzel og Good Good.

Sæluréttir Siggu er skrásett vōrumerki. Uppskriftirnar eru einungis ætlaðar til einkanota. Óheimilt er að nota þær í hvers kyns veitingaþjónustu án skriflegs leyfis frá eiganda vōrumerkisins. Dreifing, afritun, birting og ōnnur notkun uppskrifta og ljósmynda á síðunni er einnig óheimil án leyfis.