Hin danskættaða kransakaka hefur verið á fermingarborðum landsmanna lengi. Undanfarna áratugi eru þó Rice Krispies turnar ekki síður vinsælir, enda búnir til úr hráefni sem krakkar eru hrifnir af. Fyrir nokkru hafði móðir fermingarstúlku samband við mig og spurði hvort ég gæti þróað uppskrift að svona nammiturni sem væri vegan, glútenlaus og án sykurs. Þetta fannst mér spennandi áskorun og hér er útkoman.
Ég óska þess að þið eigið gleðilega og gómsæta páskahátíð! 🐣
Hráefni
100 g 100% súkkulaði
2 msk kókosolía, bragðlaus
50 g vegan smjör, kubbur frá Naturli
4 msk heslihnetu- og möndlusmjör
3 msk möndlumjöl
2 tsk hreint vanilluduft, frá Rapunzel
1/2-1 tsk salt
1 bolli fínt saxaðar hnetur, frá Rapunzel
2 bollar poppað kínúa, frá Rapunzel
2 msk yacon síróp
Til að festa saman;
40 g 85% súkkulaði
1 tsk kókosolía
Aðferð
Saxið hnetur fínt.
Bræðið vegan smjör, kókosolíu, súkkulaði og heslihnetu- og möndlusmör saman við lágan hita. Það þarf aðeins að hjálpa möndlusmjörinu, kremja með skeið til að það bráðni og samlagist hinu vel. Bætið salti og vanillu saman við og kælið blönduna. Mjög mikilvægt að kæla þar sem yacon sírópið breytist í sykur ef það er hitað.
Þegar blandan hefur kólnað er yacon sírópinu hrært vel saman við. Blandið síðan hnetumulningnum, möndlumjölinu og poppaða kínúanu saman við.
Þrýstið blöndunni í kransakökuform, sem þið hafið penslað létt með bræddri kókosolíu. Frystið í a.m.k. 4 klukkustundir. Ef þið ætlið ekki að setja turninn saman strax er það í góðu lagi því hann geymist vikum saman í frysti. Það er líka hægt að teikna misstóra hringi á bökunarpappír og setja blönduna á þá. Svolítið vandasamt, en virkar ekki síður því þá er hægt að hafa hringina grófari sem þýðir að þeir tolla betur saman.
Bræðið saman súkkulaði og kókosolíu. Losið hringina varlega úr formunum. Setjið stærsta kringinn á kökudisk, festið hann með súkkulaðiblöndunni. Setjið síðan svolitlar doppur af brædda súkkulaðinu ofan á þann hring til að festa þann næsta við. Þannig haldið þið áfram koll af kolli, frá stærsta hring til þess minnsta. Sumir hringirnir brotnuðu hjá mér en ég festi þá saman með brædda súkkulaðinu. Þar sem komu göt festi ég blómin.
Ég skreytti sem sagt með ætum blómum og festi þau með pínu doppum af bræddu súkkulaði. En þið getið notað hugmyndaflugið og skreytt með hverju sem ykkur dettur í hug.
Þessa blöndu er ekki síður gott að setja í muffins form, eða búa til litla hrauka. Tilvalið í barnaafmæli.
Ef börn eru með hnetuofnæmi má nota meira af poppuðu kínóa í stað hnetublöndunnar og hrísmjöl í stað möndlumjöls.
Uppskriftin er gerð í samstarfi við Rapunzel.
Sæluréttir Siggu er skrásett vōrumerki. Uppskriftirnar eru einungis ætlaðar til einkanota. Óheimilt er að nota þær í hvers kyns veitingaþjónustu án skriflegs leyfis frá eiganda vōrumerkisins. Dreifing, afritun, birting og ōnnur notkun uppskrifta og ljósmynda á síðunni er einnig óheimil án leyfis.