Litríka Lísa

Ekki leika þér með matinn!

Kannski var það brýnt fyrir ykkur þegar þið voruð krakkar. Ég hef reyndar aldrei hætt að leika mér með matinn og finnst óendanlega gaman að skreyta mat og drykki 😄 Enda tók ég því fagnandi þegar ég heyrði af litabombunum hennar Tobbu Marínós. Nú yrði stuð! 🥳 Ekki spillir að litarefnin eru 100% náttúruleg og meira að segja holl. Hylkin innihalda náttúrulegan lit: túrmerikduft, rauðrófuduft, hveitigras og bláa spirúlínu. Ég notaði að þessu sinni bláa spírulínu og túrmerikduft eins og sjá má. Það kom svolítið bragð af túrmerikinu, en mér fannst það bara gott 😋 

Hráefni

Prosecco (eða sódavatn)

ástríðuávöxtur

litabombur, frá Tobbu Marínós

klakar

Skjaldfléttublóm

Aðferð

Skerið ástríðuávöxtinn í tvennt. Setjið klaka í glas og innihaldið úr hálfum ávexti út í. Ef ykkur líkar ekki að bryðja fræin er hægt að sigta þau frá áður. 

Leysið duftið úr einu hylki upp í ögn af Prosecco. Setjið það út á klakana og aldinkjötið og fyllið glasið með Prosecco. Hrærið.

Það er líka hægt að setja duftið beint út á klakana og hræra saman eftir að þið hafið hellt freyðivíninu í glasið, en það er betra að leysa það upp í litlu magni fyrst. Kemur í veg fyrir kekki. 

Skreytið með ætum blómum eða sneið af ástríðuávexti. Ég notaði Skjaldfléttublóm úr gróðurhúsinu. 

Þessi drykkur er líka góður óáfengur, með sódavatni í stað freyðivíns. Þeir sem vilja eitthvað sterkara hins vegar geta bætt smá gini eða vodka út í freyðivínið. Svolítið maukað mangó er líka ljómandi í stað ástríðuávaxarins.

Sæluréttir Siggu er skrásett vōrumerki. Uppskriftirnar eru einungis ætlaðar til einkanota. Óheimilt er að nota þær í hvers kyns veitingaþjónustu án skriflegs leyfis frá eiganda vōrumerkisins. Dreifing, afritun, birting og ōnnur notkun uppskrifta og ljósmynda á síðunni er einnig óheimil án leyfis.