Jólakrans úr grænu góðgæti

Jólagjöfin mín til ykkar er þessi holli og gómsæti jólakrans. Fínasti forréttur á undan þyngri jólamáltíð, en svo er líka hægt að gera salat með þessu hráefni og sósum og nota sem aðalrétt seinna meir. 

Gleðilega og Gómsæta jólahátíð! 🎄

Hráefni

Grænt salat að eigin vali, magn fer eftir hvað þið ætlið að gera forrétt fyrir marga

100-200 g spergilkál

nokkrir litlir tómatar

1 granatepli

nokkrar greinar blóðberg, má sleppa

Aðferð

Takið fræin úr granateplinu setið dálítið af þeim á eldhúspappír til að vökvinn renni af þeim.

Raðið salatinu í hring á stórum diski svo það myndi krans. 

Skiptið spergilkálinu í kvisti og snyrtið þá til þannig að þeir séu nokkurn veginn hnöttóttir. Það er samt ekki nauðsynlegt, bara gaman ef mann langar til að jólakransinn sé sem fallegastur. Setjið spergilkálskvistina á víð og dreif um kransinn.

Þá er komið að litlu tómötunum. Komið þeim fyrir á kransinum eins og um væri að ræða jólakúlur.

Dreifið að síðustu granateplafræjum yfir og stingið nokkrum blóðbergsgreinum í kransinn.

Setjið hvítu sósuna í skál í miðjuna og hellið þeirri grænu í litla könnu og berið fram með. Það er ágætt að vera búinn að gera sósurnar nokkru áður, jafnvel daginn áður, því bragðið verður betra þegar þær hafa fengið að jafna sig.

Græn sósa

Hráefni

100 g ólífuolía

1/2 sítróna (safinn)

1-2 geirar hvítlaukur 

20 g steinselja

1 væn lúka basilika

3 greinar blóðberg, laufin

salt og svartur pipar

Hráefni í bæði þá grænu og hvítu.

Aðferð

Hreinsið hvítlaukinn og skerið gróft. Setjið allt í blandara og maukið þar til sósan er algjörlega kekkjalaus og fallega græn.

Hvít sósa

Hráefni

1 bolli hafrajógúrt (eða annað að eigin vali, einnig hægt að nota vegan mayo)

1-2  hvítlauksgeirar

1/2 gúrka

1 lúka kóríander (eða mynta)

salt og svartur pipar

Aðferð

Hreinsið hvítlaukinn og fínsaxið. 

Skrælið gúrkuna, fjarlægið kjarnann og skerið hana svo niður í litla ferninga.

Saxið kóríanderið (eða myntuna).

Blandið öllu vel saman við hafrajógúrtina og smakkið til.

Verði ykkur að góðu! 🎄

Sæluréttir Siggu er skrásett vōrumerki. Uppskriftirnar eru einungis ætlaðar til einkanota. Óheimilt er að nota þær í hvers kyns veitingaþjónustu án skriflegs leyfis frá eiganda vōrumerkisins. Dreifing, afritun, birting og ōnnur notkun uppskrifta og ljósmynda á síðunni er einnig óheimil án leyfis.