Graskersbaka

Hrekkjavaka og grasker eru nátengd í hugum margra. Á síðunni eru uppskriftir að graskersmuffins og graskerssúpu, en hér kemur svo graskersbaka. Hún er ekki sérstaklega fögur blessunin, krumpuð eins og einhver sem hefur farið of oft í sólbekki forðum daga. 😄 Ljómandi góð engu að síður 🎃

Bökuskel

Hráefni 

2 bollar möndlumjöl

1/2 bolli tapioka

1/2 bolli hrísmjöl 

2 msk brædd kókosolía

25 g vegan smjör, kubbur frá Naturli

1 egg, eða eða 1 chia egg (1 msk möluð chiafræ og 2 msk vatn)

1/2 tsk salti

1-3 msk vatn

Uppskriftin er unnin í samstarfi við Kryddhúsið og Good Good

Aðferð

Forhitið ofninn í 160°C 

Bræðið kókosolíuna og látið hana kólna aðeins.

Smyrjið bökunarmótið, eða mótin, með kókosolíu.

Sigtið saman möndlumjöl, tapíoka og hrísmjöl í skál. Saltið og blandið svo vel saman. 

Síðan kemur kókosolían og þegar þið eruð búnar að píska hana saman við er deigið eins og grófur sandur.

Að síðustu eru egg (eða chia egg sem beðið hefur í 5 mínútur) og vegan smjör í litlum bitum sett út í og þá er best að nota hendurnar til að blanda og hnoða saman á sama hátt og þegar hefðbundið bökudeig er gert. Þetta er erfiðara en þegar um smjördeig er að ræða og stundum þarf að bæta aðeins vatni út í, sérstaklega ef þið notið chia egg. 

Ef þið ætlið að baka eina stóra böku er gott að fletja deigið út með kökukefli. Þarf ekki endilega að nota bökunarpappír undir og yfir deigið til að það klessist ekki við keflið, en er samt ágætt. 

Annars, skiptið þið deiginu í bökumót og þrýstið því vel niður í mótin. Skeljarnar eiga að vera þunnar. 

Forbakið við 160 gráður í 15 mínútur áður en fyllingin er sett í.

Gott að hafa slettu af þeyttum kókos- eða hafrarjóma með.

Fylling

Hráefni

1 dós (425g) graskersmauk, lífrænt og án aukaefna 

1 bolli kókosmjólk, þykki hlutinn eingöngu

1 msk stevíuduft, frá Good Good

1/4 bolli örvarrót

2-3 tsk pumpkin spice, frá Kryddhúsinu

1/2 tsk hreint vanilluduft

Aðferð

Setjið allt í blandara eða matvinnsluvél og látið ganga þar til blandan er kekkjalaus og mjúk. 

Hellið blöndunni í bökuskelina (eða bökuskeljarnar) og bakið við 150°C í 50-60 mínútur á neðstu grind í ofninum.

Ef ykkur finnst hún verða of dökk að ofan er í lagi að setja bökunarpappír yfir síðustu 15 mínúturnar. Ekki láta ykkur bregða þó hún falli eftir að hún kemur út úr ofninum. Hún á að gera það.

Gerið ekki þau mistök að freistast til að smakka hana samdægurs. Þá er fyllingin allt of lin og bragðið ekki nógu gott heldur. Hún þarf að bíða í kæli yfir nótt áður en þið gæðið ykkur á henni. Bakan geymist vel í ískáp og er ekki síðri eftir 2-3 daga.

Hér er lítil baka. Þær fá ekki fegurðarverðlaun, en eru gómsætar.

Uppskriftin er gerð í samstarfi við Kryddhúsið og Good Good.

Sæluréttir Siggu er skrásett vōrumerki. Uppskriftirnar eru einungis ætlaðar til einkanota. Óheimilt er að nota þær í hvers kyns veitingaþjónustu án skriflegs leyfis frá eiganda vōrumerkisins. Dreifing, afritun, birting og ōnnur notkun uppskrifta og ljósmynda á síðunni er einnig óheimil án leyfis.